Klassíkin okkar: Pa-pa-gena…Pa-pa-geno

Mynd: RÚV / RÚV

Klassíkin okkar: Pa-pa-gena…Pa-pa-geno

01.09.2017 - 22:46

Höfundar

Pa-pa-gena…Pa-pa-geno úr Töfraflautunni eftir Wolfgang Amadeus Mozart.

Flytjendur: Sigrún Hjálmtýsdóttir, Ólafur Kjartan Sigurðarson, Synfóníuhljómsveit Íslands.

Eins og á við um fleiri tónskáld á efnisskrá tónleikanna gætu aríur úr smiðju Wolfgangs Amadeusar Mozart (1756–1791) haldið uppi efnisskránni í allt kvöld og vel það. Tónlistin rann úr penna hans og í bestu óperum sínum náði Mozart að láta hljómsveitarleikinn styðja fullkomlega við raddirnar sem hann hafði lítið fyrir að tvinna saman. Síðasta ópera hans Töfraflautan nýtur mikilla vinsælda enda er áhorfendum þar boðið inn í heillandi og furðulegan heim þar sem alls konar verur eru á kreiki.  

Aría Næturdrottningarinnar er einhver dramatískasta flugeldasýning tónlistarsögunnar. Reiðin sýður á drottningu þegar hún hótar dóttur sinni Paminu öllu illu ef hún gerir ekki eins og henni er sagt og myrði æðsta prestinn Sarastro. Aríurnar sem Næturdrottningin syngur reyna mjög á söngtækni en það var mágkona Mozarts, Josepha Hofer, sem fyrst tókst á við hlutverkið og tónskáldið virðist hafa vitað upp á hár hvers hún var megnug.

Dúett fuglafangarans Papagenó og hans heittelskuðu Papagenu er einn dáðasti hluti óperunnar, atriði sem býður upp á leikræna tilburði og hjartahreinar ástarjátningar á báða bóga.