Klassíkin okkar: Nessun dorma

Mynd: RÚV / RÚV

Klassíkin okkar: Nessun dorma

01.09.2017 - 22:13

Höfundar

Nessun dorma úr Turandot eftir Giacomo Puccini.

Flytjendur: Elmar Gilbertsson, konur úr Kór Íslensku Óperunnar og Óperukórnum, Synfóníuhljómsveit Íslands.

Fá óperutónskáld njóta eins mikilla vinsælda í samtímanum og Giacomo Puccini (1858–1928), en á efnisskrá kvöldsins heyrum við tvær frægar aríur úr síðustu óperum hans. Gianni Schicchi er síðasta óperan í þríleik tónskáldsins sem frumfluttur var árið 1918. Óperurnar þrjár eru allar ólíkar en Gianni Schicchi er gamanópera byggð á atviki úr Gleðileiknum guðdómlega eftir Dante. Það er Lauretta dóttir aðalsöguhetjunnar, sem hér syngur til föður síns og reynir að sannfæra hann um að leyfa sér að elska ungan mann, að öðrum kosti sé hún líkleg til að kasta sér í ána Arno í örvinglan sinni.

Óperunni Turandot, sem gerist við hirð keisarans í Kína, náði Puccini ekki að ljúka áður en hann féll frá. Í hinni geysivinsælu aríu Nessun dorma, sem prinsinn Calaf syngur á örlagastundu í flóknum söguþræði óperunnar, segir hann að enginn muni sofa í Peking þessa nótt. Calaf segir að hann muni aðeins koma upp um sitt rétta nafn með kossi á varir prinsessunnar sem hann elskar. Árum saman var Turandot þyrnir í augum kommúnistastjórnarinnar í Kína sem áleit óperuna gefa ranga og niðrandi mynd af landinu og því var verkið bannað þar í landi. Seint á tíunda áratug 20. aldar fór hins vegar svo að óperan var sýnd í sjálfri Forboðnu borginni í Peking en sá viðburður var álitinn merki um opnun landsins gagnvart umheiminum.