Klassíkin okkar: Au fond du temple saint

Mynd: RÚV / RÚV

Klassíkin okkar: Au fond du temple saint

01.09.2017 - 23:25

Höfundar

Au fond du temple saint úr Perluköfurunum eftir Georges Bizet.

Flytjendur: Elmar Gilbertsson, Ólafur Kjartan Sigurðarson.

Óperusagan er uppfull af spennandi hlutverkum bæði fyrir karl- og kvensöngvara en líklega eru fá jafn safarík til að móta á sviði og Carmen í óperu franska tónskáldsins Georges Bizet (1838–1875). Margt í óperunni vakti hneykslun þegar Carmen var frumsýnd í París árið 1875 skömmu áður en Bizet lést. Léttlyndi og daður sígaunastúlkunnar Carmen, sem vinnur við sígarettuframleiðslu, og harmrænn dauði hennar fóru meðal annars fyrir brjóstið á áhorfendum. Þessi vinsæla ópera var lengi að slá í gegn og naut tónskáldið aldrei þeirrar gríðarlegu hylli sem hún skapaði honum.

Habanera, aría Carmenar úr fyrsta þætti, er í kúbönskum danstakti og þessi aría reyndist hlutskörpust í netkosningu fyrir tónleika kvöldsins. Hér er tónninn sleginn og greinilegt að mikið háskakvendi er á ferð. Bizet taldi sig vera að notast við spænskt þjóðlag í aríunni en stefið reyndist vera úr smiðju tónskálds sem hét Sebastián Yradier. Carmen lýsir glímunni við ástina sem flestir reyna að höndla í lífinu, en varar um leið við því að ekki sé á allra færi að reyna að ná ástum hennar. Einn þeirra sem þráir Carmen er nautabaninn sigursæli Escamillo. Í frægri aríu lýsir hann sinni hetjulegu baráttu í nautaatshringnum og telur ljóst að ástin hljóti að bíða slíks meistara sem hann telur sig vera. Söngur nautabanans reyndist sú aría sem flestir bættu við val sitt í kosningunni og var henni því bætt á efnisskrána.

Að semja vel heppnaða dúetta er sérstök list, þar sem raddirnar verða að blandast vel saman. Þetta tekst Bizet einkar vel í dúettinum fræga úr Perluköfurunum. Á eyjunni Ceylon, sem í dag heitir Sri Lanka, starfa þeir Nadir og Zurga við þá heillandi iðju að fiska perlur upp úr djúpunum en svo illa vill til að þeir eru ástfangnir af sömu konunni, Brahmagyðjunni Leïlu. Í þessum fallega dúetti syngja þeir um ást sína og mikilvægi þess að láta konu ekki koma upp á milli þeirra. Þegar hér er komið sögu er nóg eftir af óperunni og ekki öll kurl komin til grafar enn.