Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Klakabrynjaðir lambhrútar finnast á lífi

12.02.2013 - 18:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Enn finnast öðru hverju kindur á lífi sem talið er að hafi týnst í óveðrinu sem gekk yfir Norðurland í september. Daði Friðriksson í Mýtvatnssveit fann á dögunum tvo klakabrynjaða lambhrúta í Gæsadal.

Daði segir að þeir hafi verið frekar horaðir, annar þeirra var sérstaklega horaður en hann telur að þeir muni lifa af. Daði segir að þeir hafi mjög líklega lifað á sinu sem þarna hafi verið.

Daði segist ekki hafa fundið neitt dautt, hann hafi þó fundið nokkra tófugrafstra niður á æti og líklega séu hræ þar undir. Það sé svo ofboðslegur snjór að það sé ekki möguleiki að finna neitt, allt sé á kafi. Daði segir þó að þeir ætli að halda áfram að leita, það þýði ekkert að gefast upp.

Þórarinn Pétursson formaður Landssamtaka sauðfjárbænda segir gleðilegt að finna fé á lífi en það breyti litlu um þann fjölda sem drapst, það sé ekki óalgengt að ein og ein kind finnist á lífi yfir veturinn. Þeir geri sér engar vonir um að fé fari að spretta upp úr fönn núna þótt nokkrar kindur finnist hingað og þangað. Staðfest sé að um tíu þúsund gripir hafi drepist.