Kjötskattur og kolefnissporið

Mynd: RÚV / RÚV

Kjötskattur og kolefnissporið

15.01.2019 - 10:01
Sigrún Eir Þorgrímsdóttir fjallaði um veganisma í fyrsta þætti af Náttúrulaus sem fjallar um hinar ýmsu hliðar umhverfismála.

Sigrún Eir Þorgrímsdóttir skrifar:

Veganismi sem lífstíll og hreyfing hefur öðlast miklar vinsældir undanfarin ár og er það meðal annars vegna þess hve umhverfisfrek ræktun á dýrum er. Í rannsóknum erlendis hefur helst verið fjallað um fóður dýranna, landsvæðið sem fer undir ræktun fóðursins og það land sem þau svo lifa á þegar kemur að reikningi á kolefnisspori kjöts, en ekki er endilega hægt að heimfæra þær niðurstöður á Ísland.

Þá hafa margar rannsóknir sýnt fram á að nautgripir séu helsta orsök losunar gróðurhúslofttegunda þegar á heildina er litið en í október síðasta árs fjallaði Spegillinn á RÚV um íslenskan landbúnað þar sem fram kemur að kindur mengi mest í krafti fjöldans. Í greininni er velt upp möguleikum til þess að vega upp á móti þessari mengun frá íslenskum landbúnaði.

Þá birti Andrés Ingi, þingmaður Vinstri grænna, pistil á Facebook nýlega og vísar í hugmynd frá Caroline Lucas á breska þinginu þar sem hún lagði til að kjöt yrði skattlagt til þess að vega upp á móti mengun kjötiðnaðarins og sá peningur notaður til þess að bændur kolefnisjöfnuðu framleiðslu sína. Þó má taka til greina að hérlendis er kjöt- og mjólkurframleiðsla niðurgreidd af ríkinu og ætti því mögulega betur við að afnema þann niðurgreiðslustyrk og nota hann í hvers kyns umhverfismál eða stuðning fyrir bændur að kolefnisjafna.

Ef styrkurinn yrði afnuminn myndi varan eflaust verða dýrari fyrir neytandann en verðið myndi þá enduspegla það sem framleiðslan kostar umhverfið. Andrés var gestur í Síðdegisútvarpinu 7. janúar þar sem þessi hugmynd var rædd og kom þá inn á aðrar leiðir sem gætu nýst til þess að minnka neyslu og losun gróðurhúslofttegunda. Þessar breytingar gætu haft það með sér í för að almenningur kaupi minna kjöt, eftirspurn verði minni og kjöt verði að lúxusvöru sem er neytt í hófi. Einnig væri þetta í takt við Parísarsamkomulagið þar sem að Ísland, og um 200 aðrar þjóðir, heitir því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til þess að sporna við 2°C hlýnun jarðar.

Fyrir þá sem vilja prófa sig áfram í vegan matargerð eru hér tvær uppskriftir að annars vegar vegan Alfredo pasta og hins vegar sveppa Bourguignon sem er sjúklega franskt og gott, líka erfitt að klúðra.

Náttúrulaus er á dagskrá RÚVnúll streymisins á mánudögum klukkan 21. Hlustaðu á fyrsta þáttinn í spilaranum hér fyrir ofan.