Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kjötborð sjálfsmyndarinnar

Mynd:  / 

Kjötborð sjálfsmyndarinnar

27.03.2019 - 19:50

Höfundar

Leikritið Súper á góða spretti og nær á köflum að afhjúpa sjálfsmynd þjóðarinnar en leysist upp þegar á líður og ádeilan fellur í skuggann af farsakenndu gríni, að mati gagnrýnanda Menningarinnar.    

Karl Ágúst Þorbergsson skrifar: 

Verkið Súper eftir Jón Gnarr í leikstjórn Benedikts Erlingssonar fjallar um persónur sem ráfa stefnulaust um í stórmarkaði í leit að festu, tilgangi og sjálfum sér í heimi innantómra ímynda og þjóðrembu. Verkið er eins konar kómísk myndlíking þess samfélagsástands sem við búum við þar sem eltingarleikur við staðalímyndir og popúlísk þjóðernishyggja einkenna hversdagslegan raunveruleika okkar.  

Neysluseggir með allt á hreinu

Verkið segir frá átta persónum sem allar virðast á einhvern hátt leita eftir staðfestingu á eigin tilvist og virka sem eins konar hátalarar eigin sjálfsmyndar og ímyndaðra drauma og væntinga. Parið Einar og Guðrún keppist við að mæta tilbúnum kröfum samfélagsins og reyna allt hvað þau geta til að það líti út fyrir að þau séu að standa sig. Elín talar af takmarkaðri innlifun um þrá sína eftir hressilegu fylleríi og einnar nætur gamni með bara einhverjum. Hannes er nýbúinn að missa föður sinn og umber harminn með því að klæðast fötum hans. Bjössi og Gugga, bændur úr sveitinni, hafa skipt um kynjahlutverk í leit að hamingjunni og Kristján kaupmaður er sannkristinn alkóhólisti nema þegar hann er í Taílandi hálft árið. Agnieszka, pólskættaður Íslendingur, stendur eilítið fyrir utan þennan hóp og reynir eftir fremsta megni að benda á þversagnir í staðhæfingum þeirra á meðan hún býður kleinur á tilboði. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Ljósmynd: Hörður Sveinsson.

Hægt er að sjá þessar persónur sem speglun á ákveðnum þversagnakenndum klisjum sem við Íslendingar virðumst viljandi eða óviljandi halda á lofti um okkur sjálf. Við erum gráðugir en meðvitaðir neysluseggir, keppumst við að hafa allt á tæru, hrynjum í það um helgar, borðum hreinan og heilnæman íslenskan mat og hömpum hinum hreina og sanna íslenska anda. Í gegnum þessar klisjur og þversagnir er gert almennt grín að ímynd okkar sem þjóðar og þjóðerniskenndum undirtónum hennar. Þetta kemur þó mismunandi skýrt fram í persónunum. Einna skýrast er þetta hjá parinu Guðrúnu og Einari, einstæðu móðurinni Elínu og hinnu pólsku Agnieszku en erfiða er að átta sig á hvar grínið liggur í öðrum persónum. Þar fer það frá því að vera almennt og yfir í hið sértæka og á stundum er eins og sé verið að hlæja að en ekki með. Komið verður að því síðar. 

Kjörbúðin sem rammi

Kjörbúðin Súper rammar inn hið leitandi ástand persónanna. Þær eru fastar inn í versluninni og komast ekki út og það er í raun eins og þær vilji ekkert endilega komast út. Í staðinn eiga þær í einstaklega innantómum samskiptum þar sem þær keppast við að básúna staðhæfingar um sjálfar sig. Texti verksins vísar þannig í færslur á samfélagsmiðlun eða kennslubækur í málfræði fyrir útlendinga. Þó svo að einstaklingarnir séu þarna saman þá virðist þeim standa á sama um hvort annað svo lengi sem þau einhver fái viðbrögð frá hinum, þau látast hafa áhuga á hvert öðru en gera það í raun alls ekki heldur hafa bara áhuga á sjálfum sér. 

Þetta er undirstrikað í leik þar sem meirihluta samtals er beint til áhorfenda frekar en þeirra sem talað er við. Þannig er lögð áhersla á þörf persónanna að lýsa yfir skoðun sinni og að opinbera sig persónulega eftir fremsta megni. En auðvelt er að skilja það þannig að slík almenn opinberun á persónulegum aðstæðum fólks stækki aðeins þann blekkingarleik sem persónurnar, og fólk almennt, leikur.   

Varpar ljósi á vaxandi þjóðrembu

Samskipti einstaklinganna á sviðinu einkennast af síendurteknum klisjum, sérstaklega tengdum öllu því sem er íslenskt. Varpað er verðskulduðu ljósi á vaxandi þjóðrembu innan samfélagsins með því t.d. að hampa sérlega íslenskum nöfnum og leggja sérstaka áherslu á framúrskarandi gæði íslensks hráefnis, sérstaklega kjúklings og svínakjöts (sem er kannski ekkert sérstaklega íslenskt hráefni). Hér er verið að fást við hina innantómu ímynd Íslands og okkar Íslendinga sem birtingarmynd hins hreina og villta, einstaka og óspillta. Þetta er kunnulegt klisja sem þjóðernispopúlistum leiðist ekki að hamra á við hvert tækifæri.

Mynd með færslu
 Mynd:
Ljósmynd: Hörður Sveinsson.

Í þessari klisju felst líka mjög alvarlegur undirtónn, þ.e. skilgreiningin byggist fyrst og fremst á því hvað við erum ekki, að við sé ekki eins og hinir, og undirstrikar markvissa samfélagslega útskúfun. Þetta kemur vel fram í afstöðu persónanna til Agnieszku sem mun aldrei getað talist Íslendingur þrátt fyrir að hafa búið hér megnið af lífi sínu og vera með íslenskan ríkisborgararétt. Þessi sami heimóttarskapur birtist okkur einnig um þessar mundir í hversdagslegum raunveruleikanum með skýrum hætti í viðbröðum nokkurra alþingismanna við mótmælum hælisleitenda á Austurvelli þar sem „þetta fólk“ er fordæmt fyrir að vanvirða sannkristin íslensk gildi eða þá sóma og skjöld okkar allra, styttuna af Jóni Sigurðssyni. 

Þessi leikur að ímyndum og þjóðrembu ristir hins vegar ekki djúpt í verkinu. Þessi ádeila á upphafna ímynd okkar sem birtist okkur síendurtekið í verkinu er vissulega sterk en þó full grunn og einföld. Settar eru á svið kunnulegar birtingarmyndir þjóðernisdýrkunar og virkar sýningin því á ákveðinn hátt sem tilbrigði við stef án þess þó að bæta miklu við umræðuna. Þó er vissulega þörf fyrir að sem flestir heyri þetta stef sem oftast því heimskt er heimaalið barnið.  

Farsinn tekur yfir

Á stundum virðist hið kómíska form verksins taka yfir á kostnað skarprar og áríðandi ádeilu. Brandarinn verður bara brandari og nær ekki að varpa ljósi á raunveruleikann sem við búum við, nær ekki að afhjúpa raunverulega fordóma og ímyndardýrkun samfélagsins. Þegar þetta gengur upp er grínið almennt og nær að beina fingrunum að samfélaginu sem heild. Þetta sést einna best í túlkun Arnmundar og Snæfríðar á hinu ósamstíga pari og í túlkun Vigdísar Hrefnu á Elínu. Enn fremur snýr Agnieszka fingrinum að fordómunum með því að benda stanslaust á þversagnakenndar yfirlýsingar annarra persóna. Hannes, Kristján, Bjössi og Gugga eru hins vegar nánast allan tímann einungis kómískar persónur og harmur þeirra og erfiðleikar ná ekki að skína í gegn.

Þetta sést vel þegar hringavitleysan varðandi kynjahlutverk Guggu taka yfir verkið. Vissulega er farskenndur absúrdblær yfir þeirri atburðarás en þó virðist farsinn eiga yfirhöndina. Grínið tekur yfir og gamanleikur Eggerts Þorleifssonar og Eddu Björgvinsdóttur fær alla athyglina. Þrátt fyrir góðan grínsprett þeirra tveggja þá verður óljóst hvar fókus verksins liggur og atburðarásin, persónurnar og leikurinn verður farsakenndur og grunnur.

Klisjuleikurinn snýst við

Í þessari atburðarás birtast einnig erfiðleikar persóna í formi úrsérgenginna staðalímynda, þar sem gert klisjukennt grín að samkynhneigð Kristjáns sem á kærasta í Taílandi og kynáttunarvandi Bjössa smættaður niður í innantómt grín. Þannig fer er harmurinn fyrir lítið og aðstandendur komnir inn á hættulegar lendur þar sem leikurinn að klisjum og ímyndum gæti snúist gegn þeim sjálfum, þ.e. í stað þess að opinbera fordóma og afhjúpa klisjur er mögulega verið að staðfesta þær. Grínið hættir að vera almennt og verður sértækt og fer að beinast að minnihlutahópnum á hans kostnað. Í tilfelli Súper verður þannig óljóst hvert markmiðið með sambandi ádeilu og gríns er, og hvort grínið sé vopn til að afhjúpa fordóma okkar, þjóðrembu og þversagnir eða hvort grínið sé markmið í sjálfu sér. Í öllu falli er ljóst að þegar grín beinist að minnihlutahópum og er á þeirra kostnað þá fellur það í besta falli flatt.   

Verkið Súper á vissulega góða spretti og nær á köflum að afhjúpa sjálfsmynd þjóðarinnar. Texti verksins er áhugaverð tilraun til að færa þekkt stef samfélagsmiðla í samtalsform og birtir okkur þversagnir hversdagslegs raunveruleika okkar. Hins vegar leysist sýningin upp þegar á líður og ádeila verksins fellur í skuggann af farsakenndu gríninu.