Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Kjósa ekki rudda eins og mig sem forseta“

15.10.2015 - 09:00
Mynd: RÚV / RÚV
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir það af og frá að hann sé að íhuga forsetaframboð. Fólk sem nefni nafn hans þekki hann ekki. Hann hafi ekki áhuga á því að verða eins og þeir sem áður hafa verið forsetar. „Ekki viltu verða eins og Ólafur Ragnar eða Vigdís?“

Kári var gestur Morgunútvarpsins á Rás í morgun. Þar var hann spurður -  undir blálokin - hvort hann hefði hug á því að bjóða sig fram sem forseta. „Ó nei - og þeir sem nefna mitt nafn í þessu sambandi þekkja mig ekki. Menn kjósa ekki rudda eins og mig sem forseta og ruddi eins og ég hef ekki áhuga á að verða forseti.“

Kári sagðist heldur ekki vilja verða eins og þeir sem hefðu áður gegnt þessu embætti. „Ekki viltu verða eins og Ólafur Ragnar Grímsson eða Vigdís Finnbogadóttir?“ Kári vildi þó ekki ganga lengra með þessar skýringar - sagðist ekki vilja tala illa um þjóðhöfðingjana.

Kári sagði íslensku þjóðina vera vana því að Ólafur Ragnar yrði næsti forseti Íslands - sjálfum gæti honum ekki verið meira sama.

Annars snerist viðtalið í Morgunútvarpinu að mestu leyti um fíkn og fíknisjúkdóma.

Kára þykir til að mynda ákveðin þversögn fólgin í því að á sama tíma og dómstólar séu að berja á fíkniefnasmyglurum séu alþingismenn að reyna breyta fyrirkomulagi á sölu áfengis - að hér verði fyrirkomulag sem sýnt hafi verið fram á að auki sölu áfengis.

Hann segir áfengi í eðli sínu ekkert öðruvísi en önnur fíkniefni - þetta sé fíkniefni sem við sem samfélag hafi sannmælst um. „Og við eigum að láta aðgengi að þessu lyfjum, sem trufla starfsemi heilans, vera eins lítið og hægt er.“

Hann viðurkenndi að fíknisjúkdómar væru honum hjartans mál - áfengissjúkdómar hefðu vegið hvað harðast að sínum vinum og ættingjum. „Og ég er sjálfur bölvaður fíkill og hef orðið að takast á við þetta sem sjúklingur.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV