Kjörsókn vex í Kópavogi – dræmt í Hafnarfirði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kjörsókn í Kópavogi tók kipp nú síðdegis og klukkan þrjú mjakaðist hún í fyrsta skipti í dag upp fyrir kjörsóknina á sama tíma fyrir fjórum árum. Hún fór svo hægt af stað í morgun að mönnum leist ekki á blikuna, að sögn Snorra Tómassonar kjörstjórnarformanns. Klukkan þrjú höfðu aftur á móti 6.046 kosið í Kópavogi, sem eru 23,4%, samanborið við 22,9% fyrir fjórum árum.

Í Hafnarfirði er kjörsókn dræm. Þar höfðu 4461 kosið klukkan þrjú, eða 21,5%. Það er öllu minna en fyrir fjórum árum – þegar 25,5% höfðu kosið á sama tíma dags.

Kjörsókn í Reykjavík er það sem af er degi litlu meiri en í borgarstjórnarkosningunum fyrir fjórum árum. Klukkan þrjú í dag höfðu ríflega 23.100 Reykvíkingar kosið, eða tæp 26%, en á sama tíma fyrir fjórum árum var kjörsókn rétt rúm 24%. Hún er hins vegar talsvert lakari en 2010, þegar 30,3% höfðu kosið á sama tíma.

Kjörsóknin á Akureyri stendur nánast í stað frá því fyrir fjórum árum. Klukkan þrjú höfðu 3831 kosið þar, eða rétt tæp 28 prósent. Á sama tíma 2014 höfðu 27,5 prósent kosið.

Alls höfðu 292 greitt atkvæði í Vesturbyggð klukkan fjögur í dag. Alls eru 698 á kjörskrá í Vesturbyggð, þannig að tæp 42% kjósenda á kjörskrá í sveitarfélaginu hafa nú kosið. 115 utankjörfundaratkvæði hafa skilað sér í hús.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi