Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kjarninn stefnir Seðlabankanum

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Fjölmiðillinn Kjarninn hefur stefnt Seðlabanka Íslands vegna þeirrar ákvörðunar að veita miðlinum ekki aðgang að upptökum að símtali Davíðs Oddssonar, þáverandi Seðlabankastjóra og Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra. Í símtalinu, sem fór fram 6. október 2008, er rætt um 500 milljón evra neyðarlán til Kaupþings.

„Þetta snýst um rétt almennings til upplýsinga,“ sagði Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarans í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun. Kjarninn og fleiri fjölmiðlar hafa óskað eftir aðgangi að upptökum af símtalinu en fengið neitun frá Seðlabankanum. „Símtalið er mikilvægt atriði í nútímasögu Íslendinga og hafði í för með sér afdrifaríkar afleiðingar. Almenningur hefur fullan rétt á að heyra það. Mér finnst það ekki eiga við að Seðlabankinn geti beitt fyrir sig þagnarskyldu í lögum um bankann til að neita að veita almenningi um upplýsingar,“ segir Þórður.

Þórður kveðst skilja þá afstöðu Geirs H. Haarde að vilja ekki að símtalið verði gert opinbert enda hafi hann ekki vitað af því að símtalið væri tekið upp. „Þetta snýst ekki um afstöðu hans, heldur Seðlabankans.“ Þórður kveðst ekki eiga von á því að opinberun símtalsins leiði margt nýtt í ljós enda hafi efni þess þegar komið fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis, Umboðsmann Alþingis, Úrskurðarnefnd um upplýsingamál og fleiri. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir