Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kjararáð lækkar laun Birnu um 40 prósent

21.02.2017 - 18:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kjararáð hefur í fyrsta skipti síðan ríkið eignaðist Íslandsbanka úrskurðað um laun bankastjóra bankans, Birnu Einarsdóttur. Samkvæmt úrskurði ráðsins, sem birtur var síðdegis í dag, verða laun hennar rúmar tvær milljónir með yfirvinnu og álagi sem fylgir starfinu. Stjórn Íslandsbanka sagði starfsárangur núverandi bankastjóra vera framúrskarandi. Bankinn hefur rekið öryggiskerfi á heimili Birnu.

Samkvæmt ársreikningi bankans fyrir árið 2015 voru mánaðarlaun Birnu 3,6 milljónir á mánuði og miðað við þennan úrskurð kjararáðs lækka laun hennar því um fjörutíu prósent.  

Búast má þó við að laun Birnu taki aftur breytingum þann 1. júlí næstkomandi. Þá taka gildi ný lög um kjararáð, að því er fram kom í ábendingu kjararáðs til Fréttablaðsins í byrjun árs en þá var tæpt ár síðan ríkið eignaðist Íslandsbanka. Samkvæmt þeirri yfirlýsingu flyst ákvörðunarvald um laun bankastjórans aftur frá kjararáði til stjórnar bankans.

Úrskurður kjararáðs er frá 31. janúar en var birtur síðdegis í dag. Laun bankastjórans hafa þó verið til meðferðar hjá ráðinu síðan í júní á síðasta ári. Í úrskurðinum kemur fram að stjórn Íslandsbanka, Bankasýslu ríkisins og bankastjóra Íslandsbanka hafi verið gefin kostur á koma sjónarmiðum sínum á framfæri við kjararáð. 

Stjórn Íslandsbanka segir í bréfi sínu að megininntak starfskjarastefnunnar sé að bankinn bjóði á hverjum tíma samkeppnishæf starfskjör og sambærileg við það sem gerist í starfsumhverfi hans. Íslandsbanka sé stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða og starfsemi hans sé margþætt sem geri miklar kröfur til daglegs stjórnanda um hæfni og stjórnunarhæfileika. „Að mati stjórnarinnar hafi starfsárangur núverandi bankastjóra verið framúrskarandi, hann hafi sinnt starfi sínu af kostgæfni og verið sterkur leiðtogi stjórnunarteymis bankans.“

Gríðarmiklar kröfur séu gerðar til viðveru og vinnu utan hefðbundins vinnutíma - raunverulegur vinnutími bankastjórans sé um það bil 130 klukkustundir utan hefðbundins dagvinnutíma og ekkert bendi til annars en að svo verði áfram. „Þess beri að geta að forstjórar í sambærilegum fyrirtækjum í fjármálakerfinu og utan þess hafi margir umtalsvert hærri laun en bankastjóri Íslandsbanka,“ segir í bréfinu.

Þá kemur fram að samkvæmt ráðningarsamningi borgi bankinn farsíma og tölvu bankastjórans, kostnað við nettengingu og reki öryggiskerfi á heimili hans. Þá greiðir bankinn jafnframt fyrir áskrift að prent-og sjónvarpsmiðlum. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur sé tólf mánuðir og láti bankastjóri af störfum að eigin ósk séu settar hömlur á atvinnustarfsemi hans næstu sex mánuði.

Stjórn Íslandsbanka segir enn fremur að Íslandsbanki hafi ríka hagsmuni af því að geta boðið stjórnendum sínum samkeppnishæf launakjör. Hún telur að ef starfskjör bankastjórans verði lakari en starfskjör undirmanns hans geti það verið skaðlegt fyrir bankann.

Bankasýsla ríkisins segir í bréfi sínu að hún telji að kjararáð eigi að horfa til úrskurðar um kjör bankastjóra Landsbankans. Þá bendir bankasýslan á að bankastjóri Íslandsbanka sé með ráðningarsamning í gildi með ákveðnum uppsagnarfresti sem rétt sé að taka tillit til við ákvörðun um ný launakjör.

Fjármálaráðuneytið beinir þeim tilmælum til kjararáðs að við ákvörðun sína skuli það gæta þess að föst laun fyrir dagvinnu verði ekki hærra en föst laun forsætisráðherra.  „Telur ráðuneytið eðlilegt að kjararáð horfi til þessa auk annarra viðmiðana þegar ákvarða eigi laun og starfskjör bankastjóra Íslandsbanka hf.“

Birna bendir á í bréfi sínu til kjararáðs að Íslandsbanki og bankastjórinn hafi hlotið fjölmörg verðlaun á síðustu árum fyrir framúrskarandi stjórnun, rekstur, þjónustu og mannauðsmál.  Hún hafi verið valin markaðsmaður ársins fyrir þremur árum og viðskiptafræðingur ársins fyrir fjórum árum. 

Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka vildi Birna ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV