Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Kjaftshögg fyrir byggðarlagið“

28.03.2014 - 16:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Stefnt er að því að flytja alla fiskvinnslu Vísis frá Þingeyri innan árs. „Þetta er að mínu áliti bara hreint kjaftshögg fyrir byggðarlagið“, segir Gunnhildur Elíasdóttir, formaður Brynju, deildar Verkalýðsfélags Vestfirðinga á Þingeyri.

Vísir er með starfsemi á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík auk starfsemi fyrirtækisins í Grindavík.  Á hverjum þriggja fyrstu staðanna, starfa um 50 manns

Á Djúpavogi er búist við að 20-25 störf komi í staðinn, við slátrun, vinnslu og pökkun fiskeldisfisks. Öllu starfsfólki Vísis á Húsavík verður boðin vinna í Grindavík, segir í tilkynningu fyrirtækisins. Til stendur að breyta húsnæði Vísis á Húsavík í hótel eða þjónustuhús fyrir ferðamenn.

Frá Þingeyri á hins vegar að flytja alla fiskvinnslu, til Grindavíkur.

Gunnhildur segir að fréttirnar hafi komið sér verulega á óvart. Hún viti vart hvað taki við. „Nei, ég bara sé ekki hvað eiginlega er framundan. Og mér fannst alveg skelfilegt að heyra í fréttinni að þeir hugsi sér að aðstoða fólk við búferlaflutninga. Guð minn almáttugur bara!"