Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Kínverskur rafbíll pantaður á netinu

01.09.2017 - 12:11
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Kínverjast stefna að stórsókn með nýjar tegundir fjöldaframleiddra rafbíla inn á markaði Evrópu og Bandaríkjanna innan fárra ára. Hugmynd þeirra er sú að selja rafbílana beint til fólks eftir pöntunum á netinu framhjá bílaumboðum. Gísli Gíslason hefur unnið að þessu verkefni með kínverskum bílaframleiðanda. Hann ræddi rafbílavæðinguna á Morgunvaktinni á Rás 1.

Íslendingar tóku seint við sér í rafbílavæðingu. Árið 2015 voru aðeins 600 rafbílar á götunum en nú tveimur árum síðar nálgast þeir þriðja þúsundið eða um 1,5% bílaflotans. „Við hefðum getað gert miklu betur,“ sagði Gísli Gíslason og tekur mið af árangri Norðmanna. Íslendingar dreifðu kröftunum, veltu fyrir sér mörgum orkugjöfum. Norðmenn einbeittu sér að rafbílnum og nú eru 160 þúsund slíkir í notkun þar, eða um 4% ökutækja í landinu. En það hraðfara þróun framundan um allan heim.

Bílaframleiðendur lýsa því nú yfir hver af öðrum að þeir séu að skipta yfir í framleiðslu rafbíla, hætta með sprengihreyfilinn. Þá hafa mörg lönd lýst því yfir að bílar knúnir jarðefnaeldsneyti verði bannaðir eftir tiltekinn tíma. „Það skemmtilega er að það þarf ekki að banna neitt,“ segir Gísli Gíslason. Bílar knúnir bensíni eða dísilolíu hverfi af götunum. Skammt er í að úrval rafbíla á markaðnum stóraukist. Þar á eftir muna mest um komu Kínverja á vestrænan bílamarkað. „Þá mun mikið breytast. Þeir fjöldaframleiða bíla og verðið lækkar.“ Sjálfur er Gísli að vinna með kínverskum bílaframleiðenda og aðstoða við markaðssetningu. Kínverjarnir koma væntanlega af krafti inn á markaði í Evrópu og Bandaríkjunum 2019 og 2020. Þeir hafa undirbúið málið lengi og ætla að koma með bíl sem stenst vestrænar kröfur. Kínverjarnir ætla að fara óhefðbundna leið, sneiða framhjá bílaumboðum en selja bílana beint til neytenda í gegnum pantanir á netinu. „Þetta er það sem ég er að fara að aðstoða þá við og hef verið að vinna að – finna leið til að koma bílum beint til neytandans.“ Raunar er líklegt að þróunin verði sú að í stað þess að fólk kaupi sér bíl geti það leigt þá í afmarkaðan tíma í gegnum netið. Nýjar kynslóðir eru síðar bundnar af þeirri hugsun sem verið hefur ráðandi á Vesturlöndum – að hver maður þurfi að eiga sinn bíl.

 

Mynd með færslu
Garðar Jónsson var fyrstur til að hlaða rafbíl sinn á hraðhleðslustöðinni við Glerártorg Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
odinnj's picture
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður