Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Kínverjar lenda í flestum umferðarslysum

07.02.2017 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV: Gísli Einarsson - RÚV
Flestir þeirra erlendu ferðamanna sem lentu í umferðarslysum hér á landi í fyrra voru Kínverjar. Rúmlega 70% allra umferðarslysa sem erlendir ferðamenn lentu í voru útafakstur eða bílvelta.

Samtök fjármálafyrirtækja og Samtök ferðaþjónustunnar héldu morgunverðarfund í morgun undir yfirskriftinni Urð og grjót - vegakerfið, umferðaröryggi og samfélagsleg ábyrgð. Á fundinum kynnti Samgöngustofa nýjar tölur um slys á erlendum ferðamönnum í umferðinni hér á landi.

Tveir erlendir ferðamenn létust í umferðinni í fyrra, samanborið við fimm árið áður. 47 slösuðust hins vegar alvarlega sem var töluverð fjölgun frá árinu áður, þegar 26 slösuðust alvarlega.

Ökumaðurinn oftast orsök

Í fyrra slösuðust flestir á Vesturlandi og næstflestir á Suðurlandi. Flestir þeirra erlendu ferðamanna sem lentu í umferðarslysum hér á landi í fyrra voru Kínverjar, næstir komu Bandaríkjamenn og svo Frakkar. Útafakstur eða bílvelta var langalgengasta tegund umferðarslysa meðal erlendra ferðamanna, rúmlega 70% allra umferðarslysa. Algengast var að ökumaðurinn sjálfur væri valdur að slysi, en næstalgengasta orsökin var slæm færð.

Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis og fræðsludeildar Samgöngustofu, segir að þessar tölur komi ekki sérstaklega á óvart.

„Að bera saman ferðamenn og Íslendinga í umferðinni, það er heilmikill munur. Við Íslendingar erum aðallega að keyra úr og í vinnu innan okkar bæjarfélags á meðan ferðamaðurinn er ekki að leigja sér bíl til að keyra á milli húsa í Reykjavík. Hann leigir bíl og fer beint út á land. Þannig að nánast öll umferð ferðamanna á sér stað úti á landi á meðan okkar umferð er að mestu leyti innanbæjar. Og þess vegna verður þessi mikli munur í tegundum slysa. Og útafaksturinn er auðvitað dæmigert utanbæjarslys á meðan við hin erum að lenda í hliðarárekstrum og aftanákeyrslum sem eru svona gatnamótaslys innanbæjar,“ segir Gunnar Geir.

Þekkja ekki aðstæður

Á fundinum kom einnig fram að hraðakstur er mun algengari á meðal Íslendinga en útlendinga, og sömuleiðis ölvunarakstur.

„Við héldum að þetta væri rótgróið í umferðarmenningu alls staðar í heiminum, en við sjáum það þegar ferðamenn koma hingað að þetta þarf ekki að vera svona sjálfsagt, að ölvunaraksturinn sé hluti af þessu. Svo langt sem gögnin ná í fyrra eru 64 Íslendingar slasaðir vegna ölvunaraksturs en aðeins einn erlendur ferðamaður. Það segir okkur auðvitað að fyrst erlendu ferðamennirnir geta ekið edrú hljótum við að geta það líka.“

Þannig að erlendu ökumennirnir eru alls ekki alslæmir?

„Nei alls ekki og þeir eru örugglega að standa sig betur en við að mörgu leyti. Vandamálið er að vegakerfið og íslenskar aðstæður eru þeim oft framandi. Þeir hafa aldrei ekið í möl, aldrei í hálku og svo framvegis. Þannig að þetta snýst ekki um að þeir séu svona lélegir ökumenn heldur þekkja þeir ekki aðstæður. Við erum ekki að fræða þá nógu mikið um við hverju sé að búast. Þannig að þetta snýst bæði um að gera vegakerfið þeim hliðhollt, og svo að fræða þá þannig að þeir fari sér ekki að voða,“ segir Gunnar Geir.