Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kínverjar kyrrsetja allar Boeing 737 MAX 8

11.03.2019 - 04:06
Erlent · Afríka · Asía · Eþíópía · Kína · Samgöngumál
Mynd með færslu
 Mynd:
Kínversk loftferðayfirvöld hafa fyrirskipað þarlendum flugfélögum að hætta allri notkun farþegaþotna af gerðinni Boeing 737 MAX 8, eins og þeirri sem fórst nokkrum mínútum eftir flugtak í Addis Ababa í gær, sunnudag. Samskonar vél fórst einnig nokkrum mínútum eftir flugtak í Jakarta í október á síðasta ári. Báðar vélar voru nánast nýjar, en MAX 8 er nýjasta útgáfan af 737-þotunni, mest seldu farþegaþotu Boeing-verksmiðjanna.

Í tilkynningu frá kínversku flugmálastjórninni segir að heimilt verði að hefja notkun þessara véla á ný um leið og tryggt þyki að gripið hafi verið til þeirra ráðstafana sem til þarf, til að tryggja flugöryggi. Um 60 Boeing 737 MAX 8 hafa verið keyptar til Kína síðan þær komu á markað.

Ethiopian og Icelandair fljúga áfram

Ethiopian Airlines, rekstraraðili vélarinnar sem fórst á sunnudag, greindi frá því í tilkynningu að það hyggist halda áfram að fljúga þeim MAX 8-þotum sem eru í flota flugfélagsins. Það ætlar Icelandair líka að gera, eins og fram kom í viðtali fréttastofu við Jens Þórðarson, forstjóra rekstrarsviðs flugfélagsins í gær, en Icelandair er með þrjár slíkar vélar í sínum flota og á von á fleirum.

Flugfélagið Cayman Airways er hins vegar á sömu línu og kínversk loftferðayfirvöld og ætlar ekki að nota tvær glænýjar þotur af þessari gerð fyrr en frekari upplýsingar liggja fyrir um ástæður slysanna tveggja. Alls hafa rúmlega 300 Boeing 737 Max 8 verið teknar í notkun síðan þær komu fyrst á markað 2017, og um 5.000 hafa verið pantaðar.