Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kínverjar kaupa upp ræktarland víða um heim

25.02.2018 - 06:41
epa04277985 Ripe winter barley is seen on occassion of the beginning of wheat harvest in Essingen, Germany, 24 June 2014.  EPA/UWE ANSPACH
 Mynd: EPA - DPA
Kínverskur auðkýfingur hefur á síðustu fjórum árum keypt þrjú þúsund hektara ræktarlands í Indre- og Allier-héruðum í Mið-Frakklandi. Franskir bændur og raunar margir landa þeirra, alls ótengdir landbúnaði, eru tortryggnir gagnvart landakaupum hins kínverska Hu Kegin, sem hefur nýtt sér gloppur í franskri löggjöf til að festa kaup á öllu þessu landflæmi: Hann kaupir ekki alla bújörðina af bændum heldur aðeins stærsta hluta hennar og því geta frönsk stjórnvöld ekki gengið inni í jarðakaupin.

Þessir 3.000 hektarar Hus í Frakklandi eru þó einungis blábroddurinn á toppi ísjakans, þegar horft er til landvinninga kínverska ríkisins og kínverskra auðkýfinga í landbúnaðarhéruðum heimsins. Kínverjar eru um fjórtán hundruð milljónir talsins, en einungis um tíundi hluti Kína hentar til landbúnaðar, og því sæki þeir í síauknum mæli út fyrir landsteinana í leit að frjósömum landbúnaðarhéruðum til að fæða kínversku þjóðina.

Í fréttaskýringu AFP-fréttastofunnar kemur fram að Kínverjar hafi keypt minnst níu milljónir hektara af ræktar- og beitarlandi í þróunarlöndum fram til ársins 2012, og töluvert hafi að líkindum bæst við síðan á þeim slóðum. Á síðustu árum hafi áherslan þó færst í auknum mæli yfir til Bandaríkjanna, Ástralíu og Evrópu.

Nefnd eru nokkur dæmi um þetta. Árið 2016 keypti kínverska eignastýringafélagið Shanghai CRED, í samkrulli við ástralskt námufyrirtæki, stærstu bújörð í heimi - S. Kidman & Co búgarðinn í Ástralíu. Um 2,5 prósent af öllu ræktarlandi í Ástralíu tilheyra þeim búgarði og þar eru um 185.000 nautgripir á fæti. Fjórum árum fyrr keypti kínverska fyrirtækið Shandong Ruyi stærstu bómullarekrur Ástralíu.

Aðeins austar, á Nýja Sjálandi, festu kínversku matvælarisarnir Bright Food, Yili og Pengxin kaup á tugum stórra mjólkurbúa, og flytja nær allt sem þaðan kemur til Kína. Svínakjötsframleiðandinn WH Group, sem er kínverskt fyrirtæki, keypti bandaríska svínakjötsframleiðandann Smithfield Foods fyrir milljarða Bandaríkjadala árið 2013.

Það sama ár bárust af því fréttir, að Úkraínsk stjórnvöld hygðust leigja kínversku stórfyrirtæki þrjár milljónir hektara af hveitiökrum og öðru ræktarlandi. Olli þetta töluverðu uppnámi, því Úkraínsk hveiti leikur stærra hlutverk á evrópskum kornmarkaði en halda mætti - í Evrópu eru það einungis Rússar, Frakkar og Þjóðverjar sem framleiða meira hveiti en Úkraínumenn. Úkraínsk stjórnvöld vísuðu þessum orðrómi þó á bug á endanum og fátt hefur heyrst af þessum áformum síðan.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV