Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Kínaferð með Orku algerlega viðeigandi

08.04.2015 - 12:37
Orka Energy undirritar samning við sveitarstjórn Xianyang og Sinopec Star Petroleum í desember 2013
 Mynd: Orka Energy
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra telur að það væri óeðlilegt ef hann gæti ekki greitt götu íslenska fyrirtækisins Orku Energy í Kína, aðeins vegna þess að hann hafi áður starfað hjá því sem ráðgjafi.

Orka Energy er orkufyrirtæki, sem vinnur að þróun jarðvarmavirkjana í Kína og á Filippseyjum. Fyrirtækið byggir á íslensku jarðvarmahugviti og á í samstarfi við mörg íslensk fyrirtæki, eins og Jarðboranir og Íslenskar orkurannsóknir, en á jafnframt náið samstarf við kínverska orkufyrirtækið Sinopec, sem er í eigu kínverska ríkisins.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra starfaði sem ráðgjafi fyrir Orku Energy í Singapúr á meðan hann tók sér hlé frá þingstörfum eftir hrunið, en hætti áður en hann fór aftur á þing árið 2011. Leiðir hans og Orku Energy hafa þó áfram legið saman, og fulltrúi fyrirtækisins var með í vinnuferð ráðherrans og nokkurra embættismanna til Kína í síðasta mánuði.

Fjöldi vísindamanna til Kína

„Ástæðan fyrir því að það voru fulltrúar þarna frá Orku Energy er að það fyrirtæki hefur verið að gera alveg stórmerkilega og mjög glæsilega hluti í jarðhitaverkefnum í Kína,“ segir Illugi. „Í gegnum það hafa fjöldi íslenskra vísindamanna og sérfræðinga á sviði jarðhita fengið tækifæri til að sinna sínum störfum þar. Fyrir liggja samningar milli Íslands og Kína á orkusviðinu, þar sem verið er að semja milli landanna um það hvernig við getum unnið saman að því að nýta jarðhitann. Það var alveg eðilegt að það fyrirtæki sem er burðarvirkið í því samstarfi tæki þátt í því sem sneri að þessu.“

Illugi segir að fulltrúar einkafyrirtækja hafi farið í ferðina á eigin kostnað.

 

Einnig með Orku til Kína í fyrra

Í rúmlega ársgamalli frétt á vef Orku Energy kemur fram að Illugi hafi einnig verið viðstaddur þegar Orka Energy undirritaði samning við sveitarstjórn Xianyang og fyrirtækið Sinopec Star Petroleum í desember 2013. Illugi kveðst hafa verið þar á vegum ríkisstjórnarinnar, sem ráðherra rannsókna og vísinda.

„Það er mikið um það talað að menn vilja að ráðherrar hafi góða reynslu og fjölbreytta til að geta sinnt sínum störfum,“ segir Illugi. „Á þeim tíma sem ég var utan þings hlaut ég að afla mér tekna með því að vinna fyrir fyrirtæki. Þetta var eitt þeirra. Mér finnst það algerlega viðeigandi, já. Ég sé ekki með nokkrum hætti að það sé hægt að gera það tortryggilegt. Og það væri reyndar óeðlilegt ef ég léti það hafa áhrif á mig að hafa komið nálægt þeirra starfi, sem ég er mjög stoltur að hafa tekið þátt í, því það hefur skilað miklum árangri.“

Talið er mikilvægt að háttsettir embættismenn séu viðstaddir samningagerð í viðskiptaheiminum í Kína, og algengt að íslenskir ráðamenn reyni að greiða götu íslenskra fyrirtækja í landinu.

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV