Larsen greindist með krabbamein í blöðruhálskirtli í desember síðastliðnum og aflýsti í kjölfarið tónleikaferðalagi ársins. Á Facebooksíðu söngvarans kemur fram að eiginkona Larsens, Liselotte, og börn hans hafi verið hjá honum þegar hann lést og að útförin verði haldin í kyrrþey. Þá bað hún fjölmiðla um frið til þess að syrgja.
Larsen hóf ferilinn með hljómsveitinni Gasolin sem var ein vinsælasta rokkhljómsveit Danmerkur á áttunda áratugnum. Þegar Gasolin lagði upp laupana árið 1978 hóf hann afkastamikinn sólóferil sinn. Samanlagt hefur hann gefið út 22 hljómplötur. Þá hefur hann selt um fimm milljón eintök af plötum sínum.
Nýjasta plata Larsens, Øst for Vesterled, sem hann gaf út með hljómsveit sinni Kjukken í fyrra hlaut mikið lof gagnrýnenda.