Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kielsen ætlar að ræða við alla flokka

25.04.2018 - 12:12
Mynd með færslu
Kim Kielsen, formaður grænlensku landsstjórnarinnar. Mynd: Johannes Jansson - norden.org
Kim Kielsen, leiðtogi Siumut sem áfram er stærsti flokkurinn á grænlenska þinginu eftir kosningar í gær, segist opinn fyrir samstarfi með öllum flokkum.

Allir flokkar gengu óbundnir til kosninga og því óljóst hvort þriggja flokka stjórn Siumut, IA og Partii Naleraq haldi áfram. Siumut missti rúmlega sjö prósentustiga fylgi frá síðustu kosningum. Hann er þrátt fyrir það enn særsti flokkurinn með 27,2 prósenta fylgi.

Sjö flokkar og 31 sæti

Alls voru sjö flokkar í framboði sem allir náðu sæti á þingi. Alls er 31 þingsæti á grænlenska þinginu í Nuuk og því margir möguleikar í stöðunni þegar kemur að því að mynda stjórn. Viðbúið er að Kim Kielssen verði áfram formaður landsstjórnar Grænlands og segist hann tilbúinn að ræða við alla flokka um samstarf. Hann ítrekaði mikilvægi þess að pólitískur stöðugleiki yrði ríkjandi á komandi tímabili.

Tveir nýir flokkar fengu sæti á þingi, Samarbejdspartiet og Nunatta Qitornai, eitt sæti hvor. Formaður þess síðarnefnda klauf sig út úr Siumut í fyrra. Samarbejdspartiet talar fyrir sterkari samskiptum við Dani og vill áfram vera undir danskri stjórn.

Sjálfstæði ekki forgangsmál

Þá hlaut Demókrataflokkurinn góða kosningu og bætti við sig tveimur þingmönnum og er nú með sex þingmenn. Flokkurinn segist reiðubúinn að taka þátt í samsteypustjórn en helsta baráttu mál hans er lækkun skatta.

Flestir flokkarnir eru hlynntir sjálfstæði Grænlands sem ekki var kosningamál nú en kosið var m.a. um mismunandi áherslur um hvernig beri að standa að veiðigjöldum fyrir aðgang að fiskveiðiauðlindum í grænlenskri lögsögu. Þá voru menntamál á oddinum þar sem margir eru sammála um að þau þurfi að vera í lagi áður en Grænlendingar hljóti sjálfstæði frá Dönum.