Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Keyrir í annað sveitarfélag fyrir netsamband

16.03.2016 - 19:11
Drangsnes strandir vestfirðir bæjir
 Mynd: Jóhannes Jónsson - ruv.is
Dræmt netsamband skerðir búsetuskilyrði á Drangsnesi og takmarkar aðgengi íbúa að menntun. Þetta segja formaður fræðslunefndar og skólastjóri á Drangsnesi. Íbúi keyrir í annað sveitarfélag til að fá nógu gott netsamband fyrir vinnu.

Drangsnes er einn fárra þéttbýlisstaða á landinu sem er ekki tengdur við ljósleiðara. Á síðasta ári var ljósleiðari lagður til Hólmavíkur, sem er næsti þéttbýlisstaður, en ekki á Drangsnes. Ingólfur Árni Haraldsson er formaður fræðslunefndar Kaldrananesshrepps: „Það er mikið að hrjá okkur hérna að við getum voða lítið fengið nýtt fólk hingað sem vill vinna í gegnum internetið því að það þarf að sækja internetið annarstaðar en hérna á svæðinu.“

Nýr skólastjóri tók við störfum í grunnskólanum á Drangsnesi í haust en maður hennar vinnur fyrir Reiknistofnun Háskólans og ekur til Hólmavíkur, í annað sveitarfélag, til að fá nógu gott netsamband til vinnu. Það er 33 kílómetra leið. Skólastjórinn segir að dræmt netsamband hafi mikil áhrif á kennslu. Til dæmis er ekki hægt að skoða myndbönd til kennslu á netinu og óöryggið er mikið: „Við getum í raun aldrei tryggt að það sé nógu gott, hvort sem við erum að hugsa til kennslu eða rafrænna prófa sem Menntamálstofnun er nú að innleiða. Til dæmis á næsta skólaári verða öll samræmd könnunarpróf rafræn – ég get engan vegin tryggt að börnin geti tekið þessi rafrænu próf.“ Hún segir þó að Menntamálastofnun hafi sent út könnun þar sem hún hafi gert grein fyrir þeirri stöðu sem skólinn er í. „Þetta er náttúrlega stór hluti af hversdegi okkar og ef við getum ekki sinnt þessu í kennslu þá er það alvarlegt mál fyrir utan það að þetta takmarkar aðgengi íbúa á svæðinu til menntunar.“

„Við erum ekkert á dagskránni með ljósleiðara en það er ekkert endilega það sem maður er að fara fram á en að fá betra internet er alveg nauðsynlegt uppá að fá betra öryggi og betri byggð,“ segir Ingólfur. Hann segir að á veturna þá geti fólk nýtt sér 3G samband en þegar ferðamenn bætast við íbúa á sumrin þá ráði kerfið ekki við þann fjölda og það samband verður slæmt líkt og annað. 

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður