Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Keyrðu framhjá lokunarslá

26.12.2017 - 11:53
Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Einarsson - RÚV
Ferðamennirnir sem festu bíl sinn á Breiðdalsheiði í gær keyrðu fram hjá lokunarslá. Björgunarsveitarmaður segir nokkuð um að þetta gerist og telur rétt að skoða hvort loka þurfi veginum enn betur til að hindra bíla í að komast á hann.

Björgunarsveitir voru kallaðar út um tíuleytið í gærkvöld. Þá fengu þær þau skilaboð að bíll væri fastur, væntanlega á Öxi, sem hafði verið á leið í Egilsstaði. Þessi bíll hafði verið í samfloti við annan bíl, en í þeim báðum voru taílenskir ferðamenn. Annar bíllinn fór firðina, en hinn Breiðdalsheiði og sá bíll festist á Axarvegi fyrir ofan Berufjörð.

Jökull Fannar Helgason sem situr í svæðisstjórn björgunarsveitanna á Austurlandi segir aðstæður hafa verið þokkalegar á heiðinni. „Það er snjór á henni, skaflar hér og þar, en það hafa bílar verið að fara þessar slóðir. Vegurinn var lokaður með slá sem var sett niður.“

Jökull kunni ekki skýringu á því hvers vegnar ökumaður þessa bíls ákvað að fara heiðina. „Ég held að þeir hafi verið að fara eftir GPS-tækjunum og ætlað sér stystu leið.“

Bíllinn var losaður um ellefuleytið í gærkvöld og Jökull telur að fólkið hafi þá setið fast í bílnum í átta til níu tíma. Fólkinu var fylgt af heiðinni og svo hélt það áleiðis til Egilsstaða. Því varð ekki meint af.

Jökull segir nokkuð um að fólk sé að aka Breiðdalsheiðina þrátt fyrir að hún sé lokuð, en heiðin var hluti af þjóðvegi eitt þar til í nóvember. „Þessi lokunarslá virðist ekki duga, menn bara keyra fram hjá henni og það er svolítið sérstakt. Maður veltir því fyrir sér hvort það þurfi ekki að gera eitthvað meira þannig að það sé hægt að loka þessu alveg og menn komist ekki fram hjá lokuninni.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV