Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Keyrði niður tugi barna - átta létust

23.04.2019 - 06:29
Mynd með færslu
 Mynd: nn - Google maps
Tíu létu lífið, flest þeirra börn, þegar lögreglumaður á frívakt ók inn í hóp barna sem fagnaði páskum með skrúðgöngu í borginni Gombe í Norðaustur-Nígeríu að kvöldi páskadags. Um þrjátíu börn slösuðust. Lögreglumaðurinn og félagi hans, sem var með honum í bílnum þegar hann ók inn í barnahópinn, eru á meðal hinna látnu og er haft eftir lögreglu og sjónarvottum að æfareiður mannfjöldinn, sem varð vitni að óhæfuverkinu, hafi ráðist á þá og drepið á staðnum.

Sjónarvottar fullyrða að maðurinn hafi ekið bíl sínum vísvitandi inn í barnahópinn eftir að hann lét óbótaskammir dynja á börnunum vegna þess að þau trufluðu umferð um veginn. Hermt er að börnin hafi á endanum vikið úr vegi, en ökumaðurinn hafi þá verið orðinn viti sínu fjær af bræði og  brugðist við með því að keyra þau niður. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV