Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Keyra áfram á kannabislaufi við Langholtsveg

09.08.2018 - 14:52
Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson/RÚV / Rúnar Ingi Garðarsson/RÚV
Þegar græna ljósið kviknar á umferðarljósum í austurborginni birtist grænt kannabislauf. Páll Sigurðsson hjá Reykjavíkurborg segir að skemmdarverk á umferðarljósum séu ekki algeng enda geri flestir sér grein fyrir því að þau séu mikilvæg öryggistæki.

Svo virðist sem búið sé að setja stensil yfir græna ljósið og því birtist grænt kannabislauf þegar ökumenn mega halda áfram akstri við gatnamót Langholtsvegar og Álfheima.

Spurður um hvað sé gert þegar svona mál koma upp, segir Páll það einfalt.

„Við fjarlægjum svona lagað strax, sama hvaða mynd er sett. Það er mjög sjaldgæft að svona komi upp og heyrir algjörlega til undantekninga.“ Strax verði farið í að fjarlægja stensilinn af ljósinu.

„Umferðarljós eru eitt af fáu sem fær að vera í friði fyrir skemmdarverkum. Þetta er náttúrulega öryggisatriði. Það er heilbrigð skynsemi að vera ekki að fikta í þessu og flestir hafa vit á því að vera ekki að fikta í þessu,“ segir Páll.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV