Ketó-fæði selst sem aldrei fyrr

Ketó-fæði selst sem aldrei fyrr

02.05.2019 - 00:43

Höfundar

Sífellt fleiri veitingastaðir eru farnir að bjóða upp á ketó-valmöguleika og virðist ketó-lífsstíll búinn að marka sér sess hjá íslensku þjóðinni. Frá áramótum hefur innflutningur á blómkáli aukist um 40%. 

 

Fólk sem tileinkar sér ketógenískt mataræði takmarkar kolvetni - til að fá líkamann til að nota fitu og prótín sem aðalorkugjafa í stað kolvetna. Markmiðið er jafnan að léttast. Talað er um að 5% orku úr fæðu komi úr kolvetnum, um það bil 20% úr prótínum og um það bil 75% úr fitu.

Ekki öll kolvetni vond

Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði hjá Háskóla Íslands, segir að ekki séu öll kolvetni vond. Lykilatriði sé að auka gæði matar. „Það er eitthvað sem við getum verið sammála um og er gegnum gangandi sem virkar bæði í kúrum og öllum lífstílslausnum.“ Hún segir þó að ketó geti reynst mörgum vel.

Facebook-hópurinn Keto Iceland telur hátt í 10 þúsund og Viðar Freyr Guðmundsson, einn stofnenda hópsins, segist ekki hafa átt von á þessum vinsældum. Mataræðið sé vissulega öfgakennt og ekki á allra færi. „Þegar ég byrjaði á þessu þá vorum við bara örfá sem vorum að vasast í þessu og nokkrir snapchattarar, og svo voru einhverjir hópar sem voru fyrir Atkins eða eitthvað slíkt en þetta hefur algjörlega sprungið út í vinsældum.“

„Við horfum á í dag að við höfum kannski alltaf verið svolítil delluþjóð, þegar eitthvað kemur er það miklu kröftugra hér en í löndunum í kringum okkur en þetta er kannski grimmari markaðssetning, ég hugsa að samfélagsmiðlarnir eru sterkir í þessu.“ segir Anna Sigríður.

Sölutölur rjúka upp

Og markaðurinn ber þess merki. Sala apóteka á Ketostix, sem mælir ketóna í þvagi, jókst um 300 prósent í fyrra. Sala á sviðasultu hjá SS hefur aukist um allt að 30% og aukin kjötneysla vegna ketómataræðisins hefur vegið upp á móti samdrætti í sölu vegna vegan-lífsstílsins, að sögn forstjóra SS. Frá áramótum hefur innflutningur á blómkáli, sem er mjög vinsælt í ketó-mataræði, aukist um 40% hjá Bönunum ehf. 

Anna Sigríður segir kosti og galla við þessa þróun. „Við sjáum diska í ketó þar sem fólk er fyrst og fremst að borða kjöt og sósu og ekki neitt annað, það er slæma dæmið en svo sjáum við aðra sem eru komnir með hálfan disk í grænmeti og það er eitthvað sem við höfum verið að reyna að ná fram lengi.“

Þurfa allir að borða eins?

Fjölmargir veitingastaðir bjóða nú upp á ketó-útgáfur af réttum. Guðríður Hjördís Baldursdóttir, ketópizzu-bakari, segir viðbrögðin hafa verið vonum framar. Ítrekað seljist upp og um páskana voru raðir út fyrir horn. „Þau eru bara svo góð að við eiginlega höfum varla undan og erum nýkomin af ketó vakt að framleiða fleiri botna, við viljum auðvitað að fólk geti komið og fengið það sem það langar í. Við erum í raun að slá met á hverjum einasta degi, það er bara þannig núna.“

Ikea býður einnig upp á ketó-rétti og telur Þórarinn Ævarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins, þróunina síðustu daga vera rétt að byrja. „Ég held að þetta verði svona eins og með vegan réttina ég held að enginn veitingastaður í dag geti komist upp með það að sleppa því að bjóða upp á vegan valkosti sama held ég með þá sem vilja ná alvöru árangri að bjóða upp á þetta.“

Allir sem fréttastofa talaði við tala um að hlusta á líkama sinn og jafnvel ráðfæra sig við lækni áður en farið er á fullt í ketó-mataræði. „Af hverju eiga allir að borða eins? er eitt fæði fullkomið fyrir alla? það er kannski stóra spurningin.“ segir Anna Sigríður.