Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kerfisáætlun Landsnets samþykkt

24.01.2019 - 17:02
Mynd með færslu
 Mynd: Landsnet
Orkustofnun hefur samþykkt kerfisáætlun Landsnets til næstu níu ára. Í þriggja ára framkvæmdaáætlun eru háspennulínur á Norðurlandi og Suðurnesjum langstærstu verkefnin, auk þess sem fjölmörg smærri verkefni eru á dagskrá víða um land.

Orkustofnun fékk kerfisáætlun Landsnets 2018 til 2027 til formlegrar meðferðar í lok ágúst og óskaði í kjölfarið eftir breytingum. Uppfærð áætlun var tilbúin í desember og hún hefur nú verið samþykkt.

Eyðir óvissunni um framkvæmdir

Kerfisáætlunin er tvíþætt; annars vegar er langtímaáætlun fyrir uppbyggingu á flutningskerfi raforku á næstu tíu árum og hins vegar framkvæmdaáætlun til þriggja ára. Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets, segir mjög mikilvægt að hafa samþykkta kerfisáætlun í höndunum. „Þetta eyðir náttúrulega óvissunni um okkar framkvæmdir, allavega þrjú ár fram á veginn. Og auðvitað eru margir sem bíða eða hafa væntingar um það að ákveðnar framkvæmdir fari í gegn.“

Fjölmörg smærri verkefni um allt land

Í þriggja ára framkvæmdaáætlun eru fjölmörg verkefni talin upp. Flest þeirra í smærri kantinum um allt land. „Þetta eru ýmist ákveðin verkefni sem snúa að endurbótun, semsagt bæta ákveðna þætti í raforkukerfinu. Og svo hinsvegar sem snýr að endurnýjun. Það er að segja það er verið að endurnýja eldri mannvirki,“ segir Sverrir. 

Þrjár stórar háspennulínur mest áberandi

En framkvæmdir við þrjár stórar háspennulínur eru mest áberandi í þriggja ára áætlun. Það eru Kröflulína þrjú, Hólasandslína þrjú og Suðurnesjalína tvö. Kröflulína er fremst í röðinni og á að liggja frá Kröfluvirkjun austur í Fljótsdal. „Og er þá fyrsti áfangi í því að byggja upp eða endurnýja Byggðalínuna, þetta meginflutningskerfi úti á landsbyggðinni,“ segir Sverrir.

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV