Kerfill fékk að finna fyrir því í Bolungarvík

13.07.2018 - 10:21
Ráðist var að rótum kerfils og lúpínu í Bolungarvík í vikunni í sameiginlegu átaki sveitarfélagsins, Náttúrustofu Vestfjarða og íbúa.

Íbúar þreyttir á ástandinu

Nokkrir íbúar Bolungarvíkur stofnuðu Facebook-hóp fyrir sex árum vegna átroðnings kerfilsins í bæjarlandinu. „Þar sást bara að íbúar eru þreyttir á ástandinu og hafa vilja til að taka þátt. Og þá fórum við í hreinsunarferðir sem að gáfu ágætis árangur en voru kannski ekki nógu skipulagðar,“ segir Hulda Birna Albertsdóttir, sem starfar hjá Náttúrustofu Vestfjarða.

Kerfillinn dreift úr sér á síðust árum

Síðan þá hefur kerfillinn breytt æ meira úr sér. „Þetta eru innan við 10 ár, fimm sex ár, síðan það varð svona sprengja,“ segir Þóra Hansdóttir, íbúi í Bolungarvík. Bolungarvíkurkaupstaður og Náttúrustofa Vestfjarða boða nú átak gegn plöntunum, nú þegar þær hafa blómgast en eru ekki búnar að mynda fræ. „Áhrifaríkast er að ná honum svona upp með rótum. En þar sem eru komnar svona breiður, eins og þarna þar sem er verið að slá með orfinu, þar erum við aðallega að sporna við því að hann nái að dreifa fræjum,“ segir Hulda Birna.

Öllu til tjaldað í átakinu

Sláttuorf, ruddasláttuvél, gaflar, stunguskóflur, garðklippur. Öllu var til tjaldað. „Ég sé fyrir mér að við getum verið með stórvirkar sláttuvélar á næsta ári og á réttum tíma. Og hvetja fólk til umhugsunar að hreinsa garðana sína og nálægt umhverfi til að við getum spornað við þessari útbreiðslu út um allt,“ segir Hulda Birna.

Átakið kosningaloforð

„Þetta er bara gaman að fólk komi saman og gera eitthvað svona, hálftíma klukkutíma, bara það sem fólk hefur þol til,“ segir Birgir Örn Birgisson, sem er í umhverfismálaráði Bolungarvíkurkaupstaðar. Átakið er Huldu hjartans mál en það var einnig kosningamál Sjálfstæðisflokksins þar sem hún var á lista í sveitarstjórnarkosningum í vor, svo um leið er verið að standa við kosningaloforð.

„Það verður að byrja og nú erum við byrjum og við vonumst til að fá fleiri næst,“ segir Birgir Örn. Og Þóra segir þetta vera bara byrjunina, stefnan sé sett á Esjuna.