Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Kepptu í rúningi við farfuglaheimili

04.04.2014 - 19:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Það sáust snör og fagmannleg handtök á Kex Hostel í Reykjavík í dag þegar keppt var í sauðfjárrúningi. Margfaldur Íslandsmeistari bar sigur úr býtum og þakkar það fyrst og fremst góðri æfingu. Eini kvenkeppandinn fékk að reyna klippurnar á mannshöfði í fyrsta sinn.

Keppnin var haldin í beinu framhaldi af aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda og var sauðfé sótt frá Hraðastöðum í Mosfellsdal til að rýja. Sex keppendur tóku þátt, þar á meðal ein kona sem ekki er mjög algengt í svona keppni. 

„Það gekk alveg ágætlega. Það var samt fita í ullinni, svolítið erfitt að klippa þannig að hún er ekkert vel klippt,“ segir Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, Ljótarstöðum í Skaftárhreppi. „Svo er maður svolítið stressaður. En þetta er alltaf jafn skemmtilegt.“

Þegar hún er spurð hversvegna konur séu ekki fleiri í keppninni segir hún margar konur klippa heima hjá sér. „Þær eru bara ekki svona athyglissjúkar sennilega.“

Skorað var á Heiðu að nota rúningsklippurnar á ungum manni. Hún tók þeirri áskorun en fór heldur hægar í manninn en kindina sem von er. Og árangurinn virðist hafa verið ágætur. 

„Það kom á óvart, ég hef aldrei prófað þetta. Ég hélt hann myndi meiða sig, en hann bar sig allavega vel. Það var bara gaman,“ segir hún en á ekki von á því að taka að sér fleiri herraklippingar. 

Sigurvegarinn fékk afhentar gullklippurnar. Hann er vanur því, enda margfaldur Íslandsmeistari og hefur rúið í 30 ár víða um lönd. „Ég byrjaði í Úrúgvæ þar sem ég er fæddur, fór oft til Argentínu, Patagóníu. Ég hef einnig rúið á Spáni og á Mallorca og svo hér á landi,“ segir Julio Cesar Gutierrez, Hávarsstöðum í Leirársveit. 

Hann segir æfinguna skipta mestu máli fyrir árangurinn í rúningnum. Og hann fær nóg af henni, því að á þessu ári hefur hann rúið um 2.500 kindur. Svo þarf að hafa lag á kindunum. „Ef þú setur hana á réttan stað þannig að það sé þægilegt fyrir hana, þá verður hún kyrr. Ef henni líður óþægilega þá fer hún að kvarta.“ Aðspurður segist hann ætla að halda áfram að rýja á meðan skrokkurinn leyfir.