Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kenyatta skipar kvenráðherra eftir mótmæli

28.01.2018 - 02:40
epa06467981 A woman shouts slogans during a protest against Kenya's biggest referral hospital Kenyatta National Hospital (KNH) after allegations of sexual harassment on women within the hospital's maternity wing in Nairobi, Kenya, 23 January
Á mánudag kröfðust konur í Kenía þess, að forsetinn færi að lögum og skipaði konur í þriðjung ráðherraembætta. Á þriðjudag kröfðust þær aðgerða gegn nauðgunum og kynferðisofbeldi. Mynd: EPA-EFE - EPA
Uhuru Kenyatta, nýendurkjörinn forseti Kenía, kynnti nýja og breytta ríkisstjórn sína á föstudag. Í henni eru sjö konur. Það er sjö konum fleira en í stjórninni sem hann kynnti til sögunnar fyrir tveimur vikum og uppskar mikla gagnrýni fyrir. Þegar Kenyatta birti ráðherralistann fyrir hálfum mánuði, eftir mikla uppstokkun í ríkisstjórninni, vakti það talsverða reiði að þar var ekki eina einustu konu að finna, en þær voru fimm í fyrri stjórn hans.

Síðastliðinn mánudag fjölmenntu konur í kröfugöngu um götur Naíróbí, höfuðborgar Kenía, og kröfðust þess að forsetinn sæi að sér og færi að ákvæðum stjórnarskrárinnar. Hún kveður á um, að minnst þriðjungur allra opinberra embætta verði að vera skipaður konum. Í frétt BBC segir að enn vanti töluvert upp á að eftir þessu sé farið í hvívetna. Með skipun kvennanna sjö í ráðherrastöðu uppfyllir ríkisstjórn landsins þó þessi skilyrði. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV