Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Kennarar varnarlausir gagnvart símum nemenda

22.02.2016 - 15:00
Mynd: RÚV / RÚV
„Agaleysið er að aukast í skólastarfinu og í samfélaginu öllu,“ segir Guðríður Arnardóttir formaður félags framhaldsskólakennara. Hún segir að nemendur tali með meiri óvirðingu við kennara sína en áður þekktist og beri minni virðingu fyrir skólum og starfinu sem þar fer fram. „Það vantar kurteisi og virðingu. Þau leyfa sér að segja ótrúlega margt við kennara. Til dæmis þegar þú leggur fyrir verkefni og þau segja á móti: ertu geðveik?“

Reyndur íslenskukennari í MH spurði í síðustu viku á Facebook síðu sinni hvort það geti verið að kennarar leggi varla lengur í að byggja upp með því að hamra á öguðum vinnubrögðum, sjálfsaga, að nám sé vinna og nauðsyn þess að nemendur vandi sig. Hvort þeir leggi ekki í heiðarlegt námsmat af ótta við lögsóknir, facebook aðdróttanir, endurminningar þar sem þeir eru nafngreindir og rakkaðir niður?

Með síma í hönd allan daginn

Guðríður segir að þetta horfi mismunandi við kennurum þó augljóst sé að farsímabyltingin hafi breytt ýmsu. „Á þeim skólastigum þar sem nemendur eru með síma, eru þeir yfirleitt með síma í höndunum allan daginn og nota hann kannski minnst til að hringja; þetta er tölva, vídjóvél og myndavél. Kennarar hafa leitað til okkar í Kennarasambandinu þar sem tekin hafa verið upp samtöl, hljóð- eða myndbrot af þeim, án þeirra vitundar. Það getur verið mjög slæmt þegar þetta er slitið úr samhengi.

Kennarar halda sig til hlés

Guðríður segist vita til þess að kennarar séu farnir að halda sig til baka varðandi ýmsa umræðu, sérstaklega um viðkvæm málefni „og kannski leyfa sér ekki að blómstra af ótta við að það geti einhver tekið þá upp og þetta fari á samfélagsmiðla; Twitter, Snapchat og fleiri staði. Við höfum séð myndir af kennara í kennslustund og fyrir neðan eru skrifaðar ósmekklegar athugasemdir og myndunum dreift á stóran hóp nemenda í skólanum. Það eru svona hlutir sem kennarar eru mjög varnarlausir gagnvart.“

Réttindum fylgir skylda

Guðríður hefur starfað sem kennari í samtals 16 ár og segir mikinn mun á því hvernig talað er við kennara í dag, miðað við þann tíma þegar hún sjálf var nemandi. Þá byrjuðu nemendur og enduðu kennslustundir á því að standa fyrir aftan stólana sína. „Við viljum ekki að nemendur sitji þöglir í gegnum kennslustundir og auðvitað er fagnaðarefni að þeir séu meðvitaðir um réttindi sín og eiga að standa á honum ef þeim er misboðið. Þau verða hins vegar líka að vera meðvituð um að við höfum líka skyldur. Þær felast meðal annar í því að við eigum að tala við hvort annað af virðingu. Það á við inni í skólastofunni sem úti í samfélaginu.“

bjorgm's picture
Björg Magnúsdóttir
dagskrárgerðarmaður