Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kennarar og sveitarfélög semja

29.11.2016 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd: Alma Ómarsdóttir - RÚV
Félag grunnskólakennara og samninganefnd sveitarfélaga hafa komist að samkomulagi. Skrifað verður undir nýjan kjarasamning klukkan 18:15 í kvöld. Ekki fæst uppgefið hvað felst í samningunum. Þingað hefur verið í allan dag hjá ríkissáttasemjara vegna deilunnar.

Til stóð að deiluaðilar hittust hjá ríkissáttasemjara klukkan tvö í dag en fundinum var flýtt og hófst klukkan níu í morgun. Grasrót kennara hafði boðað að þeir myndu hætta kennslu klukkan hálf eitt á morgun og ganga út úr skólum. 

Eins og fram kom í hádegisfréttum RÚV þá hafa grunnskólakennarar verið samningslausir frá 1. júní. Í tvígang hafa náðst samningar milli kennara og sveitarfélaganna síðan en í bæði skiptin voru þeir felldir.

Samkvæmt samningnum sem kennarar felldu í haust áttu laun þeirra að hækka um 9,5% á næstu þremur árum. Að auki hefðu kennarar fengið rúmlega áttatíu þúsund króna annaruppbót tvisvar á ári. Kennarar hafa ekki gefið upp hversu mikillar launahækkunar þeir krefjast, en hafa sagt að þeir vilji laun á við sambærilegar stéttir.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV