Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kemur vel til greina að stofna nýjan flokk

25.01.2019 - 18:54
Mynd með færslu
 Mynd:
Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason segja vel koma til greina að stofna nýjan flokk eða ganga til liðs við annan. Karl Gauti segir að eftirspurn eftir nýjum flokki virðist mikil. Ólafur segir að stöðugt sé verið að hvetja menn til að ganga til liðs við aðra flokka. Báðir segja brotalöm í þingsköpum þegar kemur að því að starfa utan flokka.  

Voru ekki á leiðinni úr flokknum

Nú hafa allir þingmenn kenndir við Klaustur snúið aftur tl starfa. Ein af fjölmörgum kenningum um tilgang fundarins 20. nóvember er sú að Miðflokksmenn hafi reynt að fá þá Ólaf Ísleifsson og Karl Gauta Hjaltason til liðs við sig. Ólafur segir það ekki hafa verið möguleiki á þeim tíma. 

„Við vorum ekkert á leiðinni út úr þessum flokki sem við vorum í. En við höfum fengið þarna ýmsar áskoranir, og ein þeirra kom nú þarna og er nú orðin alþjóð kunn,” segir hann. 

Ósáttir við að fá ekki ræðutíma

Karl Gauti og Ólafur gengdu áður formennsku og varaformennsku í þingflokki Flokks fólksins þar til þeir voru reknir þaðan í lok nóvember eftir Klausturmálið. Þeir hafa staðið utan flokka síðan. Þeir fengu til að mynda engan formlegan ræðutíma þegar þing hófst á mánudag og voru báðir mjög ósáttir við það. 

„Við þessa stjórnmálaumræðu er okkur ekki úthlutuð ein einasta mínúta. Þetta er óboðlegt, herra forseti,” sagði Karl Gauti í pontu við upphaf þingfundar á mánudag. 

Báðir fullyrða að þingsköpin ráði ekki við að tryggja þingmönnum utan flokka aðgang að dagskránni. 

„Þau ýta mjög fast á menn að skoða mjög vandlega sína stöðu,” segir Ólafur. 

Stofna nýjan flokk eða ganga í annan

Tvímenningarnir ætla að halda samstarfi sínu áfram. Karl Gauti segir að eftispurn eftir nýjum flokki virðist mikil og vel komi til greina að stofna slíkan. Ólafur segir það einnig alvanalegt að menn biðli til þingmanna að ganga til liðs við sig. 

„Það er þannig á göngum Alþingis að þá er náttúrulega stöðugt verið að hvetja menn til þess að koma yfir eins og það heitir. Það á ekki síst við gagnvart nýjum þingmönnum í litlum flokkum. Svo ég tala nú ekki um ef þeir eiga sér einhverjar hugsanlegar rætur eða einhverja sögu aftur í tímann,” segir Ólafur.  

Við erum að tala um þessa tvo flokka, Sjálfstæðisflokkinn og Miðflokkinn, koma fleiri flokkar til greina? 

„Þú nefndir þessa tvo flokka, þetta eru náttúrulega borgaralega sinnaðir flokkar. Og ég kannski veit ég ekki hverju maður fengi áorkað í sósíalísku flokkagrúppunni.  Maður veit það ekki,” svarar hann.  

Kæmi til greina að stofna annan flokk? 

„Menn hafa svo sem gert annað eins.”