Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Kemur ekki til greina að hætta við

15.10.2014 - 19:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Það kemur ekki til greina að falla frá hækkun matarskatts enda vegi önnur atriði upp á móti. Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Hann segir breytinguna til hagsbóta fyrir almenning og mikilvæga fyrir ríkissjóð.

Frumvarp fjármálaráðherra um hækkun matarskatts hefur sætt þónokkurri gagnrýni í vikunni og þá sér í lagi þau dæmi sem sett eru fram um þá fjármuni sem landinn eyðir í mat. Fjármálaráðherra vísar þessari gagnrýni á bug og segir ráðuneytið ekki setja fram nein neysluviðmið heldur sé gert ráð fyrir tilteknu hlutfalli af heildarútgjöldunum í matarinnkaup, sem byggi á niðurstöðum Hagstofunnar. „Vissulega kaupir fólk líka matvöru í mötuneytum á veitingastöðum og þess háttar. Við tökum líka tillit til þess,“ segir Bjarni. „Og við höfum enga skoðun á því hvað er eðlilegt að máltíð kosti að meðaltali, enda segir ekkert um það í frumvarpinu.“

Fimm þúsund í Facebook-hóp til varnar matarskatti
Bryndís Loftsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokks, stofnaði í gær Facebooksíðuna „Verjum 7% matarskatt“ og hefur náð yfir 5.000 fylgjendum. Þá ákvað Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, sem tók sæti sem varaþingmaður á Alþingi í vikunni, að borða fyrir 750 krónur á dag í viku í ljósi umræðunnar.

„Mér heyrðist að Framsóknarmaðurinn teldi sig hafa gott af því að skera aðeins niður við matarinnkaupin, það fylgdi fréttinni, og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins er einfaldlega að fara með fleipur þegar hún er að reikna áhrifin á matarkörfuna,“ segir Bjarni og kveður aðrar mótvægisaðgerðir verða til þess að heimilin komi út í plús. „Og efra þrepið skiptir máli, meðal annars þegar maður fer í dagvöruverslanir og kaupir hluti sem maður setur ekki ofan í sig, þeir eru allir að fara að lækka í verði.“

Efasemdir í matvöruverslun
Fréttastofan fór út í búð og ræddi við neytendur.

„Í gegn um árin þá er alltaf bara verið að koma með eitthvað á móti, en mér finnst það einhvern veginn aldrei virka. Þetta er bara eins og þetta sé eitthvað trix til þess að hafa okkur góð,“ sagði Ásdís Gunnarsdóttir.

„Þetta virkar dýrt,“ sagði Andrew Baker frá Englandi. „Þetta er í fyrsta skipti sem við höfum farið í stórmarkað á Íslandi og allt hérna virðist vera dýrt.“

„Og það fólk sem á ekki pening og eru námsmenn eða svoleiðis, þau eru ekki að kaupa sér sjónvarp, ísskáp eða þvottavél. Því það er innifalið í leigunni, leigusalinn sér um það allt saman. En þau þurfa að kaupa mat á hverjum degi,“ sagði Garðar Helgi Biering.

„Kannski er eitt sem er mikilvægt í þessu, því ég trúi því ekki að þetta sé að fara að gerast í alvöru, að hækka matarskattinn, en það er fólk sem er að lifa á þessum peningum, sem var verið að tala um, 200 eða 300 kall máltíðin eða á dag eða eitthvað svoleiðis, það er fólk sem er að lifa á þessu núna,“ sagði Melkorka Huldudóttir.

Kemur ekki til greina að hætta við
Það er kannski alveg eðlilegt að það sé ekki efst á óskalista hjá almenningi að láta hækka matvöruverð. En samkvæmt fjármálaráðuneytinu eiga hækkanir barnabóta og lækkanir vörugjalda að verða til þess að ráðstöfunartekjur íslenskra heimila aukast. Og þá er bara að sjá hvort að málið fari óbreytt í gegn um þingið.

„Það kemur ekki til greina að falla frá máli sem ég er nýbúinn að mæla fyrir og tel að það sé til hagsbóta fyrir heimilin og mikilvæg fyrir ríkissjóð,“ segir Bjarni.