
Keiko Fujimori í þriggja ára gæsluvarðhald
Fujimori er ákærð fyrir að þiggja ólögleg fjárframlög í kosningasjóð sinn frá brasilíska byggingarisanum Odebrecht að andvirði um 150 milljóna króna, þegar hún var í forsetaframboði 2011.
Dómarinn, Richard Concepcion Carhuancho, sagði „alvarlegan grun“ uppi um að Fujimori stjórni því sem vart verði kallað annað en glæpasamtök, sem hreiðrað hafi um sig innan flokks hennar og stundi meðal annars peningaþvætti. Sagði dómarinn einsýnt að mikil hætta væri á að Keiko Fujimori myndi flýja land, og því væri eina ráðið að úrskurða hana í gæsluvarðhald.
Í frétt AFP segir að þessi niðurstaða dómarans geri að líkindum út um möguleika hennar á að bjóða sig fram til forseta þriðja sinni, en hún tapaði í seinni umferð kosninganna 2011 og 2016. Sjálf segir hún dómarann og saksóknarann þátttakendur í pólitísku samsæri og sjónarspili, sem snúist um það eitt að koma í veg fyrir forsetaframboð hennar og pólitísk áhrif á þingi.
Stjórnarskrá Perú heimilar allt að 36 mánaða gæsluvarðhald fólks sem grunað er um aðild að mjög flóknum og alvarlegum glæpum. Hvort tveggja á við um Odebrecht-hneykslið, sem teygir sig til margra ríkja Mið- og Suður-Ameríku og snýst um svimandi háar mútugreiðslur til margra af áhrifamestu stjórnmála- og embættismanna álfunnar.