Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Kaupþing hefði getað verið Landsbankinn

Kristín Edwald, verjandi Magnúsar Guðmundssonar, við réttarhöld í markaðsmisnotkunarmáli gegn Kaupþingsmönnum.
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV
Verjandi Magnúsar Guðmundssonar segir að hann hafi ekki verið að gæta hagsmuna Kaupþings, heldur viðskiptavina dótturbankans í Lúxemborg, þegar þeim voru seld hlutabréf í Kaupþingi með láni frá bankanum. Magnús hefði verið í sömu stöðu ef Landsbankinn hefði viljað selja viðskiptavinum hans bréf.

Kaupþing í Lúxemborg sjálfstæður banki
Kristín Edwald, verjandi Magnúsar, hélt málflutningsræðu sína í morgun, á síðasta degi réttarhalda vegna ákæru um allsherjarmarkaðsmisnotkun í Kaupþingi.

Kristín segir að Magnús hafi frá árinu 1998 og fram að hruni gegnt starfi forstjóra dótturbankans Kaupthing Bank Luxembourg, sem hafi verið sjálfstæður banki með 300 starfsmenn. Þegar mest var hafi þar unnið 12 Íslendingar. Eftir hrun hafi Magnús síðan áfram gegnt forstjórastöðu í arftaka Kaupþings í Lúxemborg, allt þar til hann var hnepptur í gæsluvarðhald á Íslandi 2010.

Staða Magnúsar ólík öðrum
Verjandinn segir að staða Magnúsar sé ólík öðrum sakborningum. Hann hafi ekki verið starfsmaður Kaupþings, heldur dótturfélagsins í Lúxemborg. Hann hafi engar heimildir haft til að skuldbinda Kaupþing og hafi aðeins komið að viðskiptunum sem hann er ákærður fyrir vegna þess að kaupendur hlutabréfanna hafi verið viðskiptavinir Kaupþings í Lúxemborg.

Kristín segir að staða Magnúsar hefði verið nákvæmlega sú sama ef Landsbanki Íslands hefði haft samband við hann og boðið viðskiptavinum Kaupþings í Lúxemborg að kaupa hlutabréf í Landsbankanum.

Kaupin og salan tengd „órjúfanlegum böndum
Magnús er sakaður um markaðsmisnotkun með sölu Kaupþings á eigin hlutabréfum til eignarhaldsfélaganna Holt Investment, Fjárfestingafélagsins Mata og Desulo Trading. Saksóknari telur að Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Ingólfur Helgason og Magnús hafi í sameiningu tekið ákvörðun um að selja hlutabréfin, með láni frá bankanum. Þeira neita því allir. Fjórmenningarnir eru einnig sakaðir um að hafa misnotað aðstöðu sína í lánveitingum vegna viðskiptanna.

Annars vegar er ákært fyrir það sem saksóknarinn kallar „gegndarlaus“ kaup Kaupþings á eigin hlutabréfum, og hins vegar fyrir söluna, þar sem Magnús er ákærður. Saksóknari telur að hlutabréfasalan hafi verið sýndarviðskipti, líkt og Al Thani-viðskiptin. Verjandinn segir að þessir tveir hlutar ákærunnar séu tengdir órfjúfanlegum böndum, og Magnús hafi ekki vitað hversu mikið Kaupþing átti af eigin hlutabréfum á þessum tíma.

Um söluna til eignarhaldsfélaganna segir verjandinn ennfremur að þetta hafi verið raunveruleg viðskipti, raunverulegur eignarréttur á hlutabréfunum hafi færst frá bankanum til félaganna. Þá hafi Magnús ekki komið nálægt afgreiðslu lánanna til kaupanna, og hafi orðið handvömm hjá starfsmönnum Kaupþings geti Magnús ekki borið ábyrgð á því.