Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kaupmáttur eykst um helming í útlöndum

01.11.2016 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kaupmáttur Íslendinga í útlöndum er næstum helmingi meiri nú en fyrir tveimur árum. Kaupmáttur í erlendri mynt hefur aukist um 45 prósent á þessum tíma. Þetta kemur fram í hagspá greiningardeildar Arionbanka. Þetta sé ein vísbending um að viðvörunarljós ættu að fara að kvikna. 

Greiningardeildin kynnti hagspá næstu þriggja ára í morgun undir heitinu: Fljúgum ekki of nálægt sólinni.  Greiningardeildin telur að gengi krónunnar haldi áfram að styrkjast:

„Við sjáum til skamms tíma geti hún haldið áfram að styrkjast eitthvað. En vegna þess að við metum sem svo að hún sé komin hærra eða orðin sterkari heldur en hagkerfið ræður við til lengri tíma að þá er kannski svona ástæða til þess svona að einhver viðvörunarljós fari að kvikna.“ 

segir Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur í Greiningardeild Arion banka. Hvenær það verði og hvort sé ómögulegt að segja. Það velti til dæmis á Seðlabankanum. Hann eigi eftir að gefa upp hvort hann ætli að halda áfram að kaupa gjaldeyri í risastóran gjaldeyrisforða eins og er í sumum löndum til dæmis Singapúr, þar sem er auðlegðarsjóður, eða hvort Seðlabankinn ætli að hleypa gengisstyrkingunni í gegn. 

Gengisstyrkingin kemur sér verst fyrir þá sem eru í útflutningi, segir Konráð, og kannski þá sérstaklega þá sem eru í ferðaþjónustu: 
   
„Kannski sérstaklega þeir af því að við höfum ekki séð þetta áður. Við höfum ekki áður verið með ferðaþjónustuna svona mikilvæga í hagkerfinu og ekki séð hana upplifa svona hraða gengisstyrkingu.“ 

Ísland að ná Sviss í verðlagi

Á fundi Greiningardeildarinnar í morgun kom fram að Ísland er orðið dýrara en Noregur miðað við verðlag í Evrópusambandsríkjunum. Og verðlag hér er aðeins sjö prósent lægra en í Sviss en það er dýrasta land í heimi að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er því augljóst að gengið getur haft áhrif á komur ferðamanna. 

Sterkt gengi krónunnar kemur sér afar vel fyrir Íslendinga sem kaupa vörur í útlöndum. En hafa innkaup Íslendinga erlendis aldrei verið ódýrari?: 

„Kannski ekki aldrei en það fer að verða það, já. Alla vega miðað við kaupmáttinn að þá hefur aldrei verið ódýrara fyrir okkur að versla í útlöndum. Og kaupmáttur okkar launa hefur hækkað um 45% í erlendri mynt á tveimur árum, sem er gríðarlega mikil hækkun. Og það er svona enn ein vísbending um það að það ættu einhver viðvörunarljós að fara að kvikna um það sé að skapast eitthvað ójafnvægi þegar fram í sækir, þó að staðan núna sé góð og að það sé engin ástæða til að örvænta.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV