Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kaupin á flugfélagi Grænhöfðaeyja að klárast

23.11.2018 - 22:54
Mynd með færslu
Boeing 757-200 vél sem Cabo Verde Airlines er með á leigu frá Icelandair Mynd: Diego - Wikipedia
Loftleiðir, dótturfélag Icelandair, hefur fyrir hönd nýstofnaðs félags gert bindandi tilboð í 51 prósents hlut í flugfélag Grænhöfðaeyja, Capo Verde Airlines. Icelandair var boðið til viðræðna við stjórnvöld á Grænhöfðaeyjum um að eignast ráðandi hlut í flugfélaginu í september síðastliðnum þegar það yrði einkavætt.

Fram kemur í tilkynningu Icelandair til Kauphallarinnar að tilboðið verði lagt fram í samstarfi við íslenska fjárfesta. Ekki kemur þó fram hverjir þeir séu.

Kaupverðið er trúnaðarmál en það verður að hluta til greitt með þeirri vinnu sem starfsmenn Loftleiða hafa þegar innt af hendi. Starfsmenn Loftleiða hafa að undanförnu aðstoðað við endurskipulagningu flugfélagsins en markmiðið með kaupunum er að styrkja Grænhöfðaeyjar sem ákjósanlegan ferðamannastað og byggja upp góða þjónustu fyrir millilandaflug. 

Tilboðið í Capo Verde Airlines er lagt fram fyrir hönd nýs félags, Loftleiðir Capo Verde. Loftleiðir eiga 70 prósenta hlut í því félagi en aðrir fjárfestar þrjátíu. „Það eru mikil sóknarfæri fyrir Loftleiði með þessum kaupum,“ er haft eftir Árna Hermannssyni, yfirmanni hjá Loftleiðum. „Sérstaklega í ljósi þess að að spáð er auknum farþegafjölda frá Afríku á næstu árum.“

 

Cabo Verde Airlines var stofnað 1958 og varð ríkisflugfélag Grænhöfðaeyja þegar þær urðu sjálfstætt ríki 1975. Það var ráðandi í innanlandsflugi á Grænhöfðaeyjum til skamms tíma en eftir endurskipulagningu félagsins og fyrirhugaða einkavæðingu heyrir það sögunni til. Nú er öll áhersla lögð á að tengja Ameríku, Afríku og Evrópu. 

Hátt í 800 manns starfa hjá flugfélaginu, sem á tvær Boeing-þotur og leigir fleiri slíkar, þar á meðal tvær af Icelandair.  

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV