Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kaup Skinneyjar á Auðbjörgu staðfest

Mynd með færslu
 Mynd: hornafjordur.is
Forsvarsmenn Skinneyjar – Þinganess á Höfn í Hornafirði segjast ætla að byggja upp öfluga og sérhæfða vinnslu í Þorlákshöfn, þegar gengið hafi verið formlega frá kaupum fyrirtækisins á Auðbjörgu ehf í Þorlákshöfn. Útgerð beggja fyrirtækja verði óbreytt fram í apríl, en þá verði skipum fækkað um eitt. Fjöldi landverkafólks verði hinn sami og áður.

Skinney – Þinganes samdi um kaup á Auðbjörgu í ágúst, en á kaupunum voru ýmsir fyrirvarar. Skrifað var undir samninga um kaupin nú eftir áramótin, eftir að Samkeppniseftirlitið heimilaði samruna fyrirtækjanna í desember. Í tilkynningu samkeppniseftirlitsins segir að hlutdeild fyrirtækjanna samanlagt sé undir fimmtungi af úthlutuðum aflaheimildum, nema í humri. Við rannsókn hafi komið í ljós að samruninn sé ekki til þess fallinn að raska samkeppni með umtalsverðum hætti í veiðum, vinnslu og sölu á humarafla. Því séu ekki forsendur til íhlutunar í málinu.

Þorskur í Þorlákshöfn

Forráðamenn Skinneyjar – Þinganess segja í tilkynningu í dag að fyrirtækið taki við daglegum rekstri Auðbjargar þegar gengið hafi verið formlega frá kaupunum. Í Þorlákshöfn verði lögð áherslu á vinna þorsk og selja hann ferskan og frystan. Jafnframt verði stefnt á vinnslu fleiri tegunda þegar tímar líði. Við samrunann verði gerðar breytingar á skrifstofuhaldi og það að mestu sameinað því sem fyrir sé hjá Skinney – Þinganesi. Fjöldi landverkafólks verði hinn sami.

Humarvinnslan á Höfn

Af tilkynningu Skinneyjar-Þinganess má ráða að humarvinnsla sameinaðs fyrirtækis verði öll á Höfn. Samkvæmt henni fækkar bátum í sameinaðri útgerð um einn í apríl. Samkvæmt heimildum Fréttastofu á þá að leggja bátum Auðbjargar, Arnari og Ársæli. Þinganes, nýrra og stærra skip Skinneyjar, komi í staðinn til Þorlákshafnar. Það hefur  verið verkefnalaust á Höfn í á annað ár. Sömu heimildir herma að áhöfnum Arnars og Ársæls hafi verið sagt upp, en boðið að sækja um skipsrúm á Þinganesinu.

Auðbjörg stofnuð 1970

Auðbjörg ehf hefur starfað í Þorlákshöfn frá 1970. Fyrirtækið hefur yfir að ráða kvóta uppá tvö þúsund þorskígildistonn. Fyrirtækið keypti á sínum tíma Humarvinnsluna í Þorlákshöfn og við það þyngdist rekstur þess. Það hefur gert út bátana Arnar og Ársæl, veitt og unnið humar, bolfisk og kola. Forráðamenn Auðbjargar sögðu þegar greint var frá sölu fyrirtækisins í lok ágúst að fyrirtækinu hafi ekki tekist að halda í við skerðingu á aflaheimildum. Nú væri rétti tíminn til að koma rekstri fyrirtækisins í hendur traustra aðila sem hefðu að markmiði að halda áfram rekstri í Þorlákshöfn.

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV