Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kattagetnaðarvörn ófáanleg fram í maí

18.12.2018 - 14:51
Mynd með færslu
 Mynd:  - Ghost Presenter
Lyfið Perlutex, getnaðarvarnarpilla fyrir ketti, hefur verið ófáanlegt hér á landi frá því í byrjun september og það er ekki von á því á markað fyrr en í fyrsta lagi í maí á næsta ári. Á vef innflytjandans Distica, segir að hormónalyfið sé ekki til hjá framleiðanda. Um 1500 skammtar seldust af lyfinu í fyrra. Kattaræktandi segist eiga von á skemmtilegum kór, þegar allar læðurnar byrji að breima. Lyfið er mjög krabbameinsvaldandi sé það notað til langs tíma.

Með allar klær úti frá því í október

Vistor Dýraheilbrigði, systurfyrirtæki Distica, markaðssetur lyfið hér á landi. Anna Ólöf Haraldsdóttir, markaðsstjóri hjá Vistor Dýraheilbrigði, segir að lyfið sé ekki til í Evrópu. Um miðjan október fékk hún þær upplýsingar frá framleiðandanum, Dechra Vet, að lyfið yrði ekki væntanlegt fyrr en eftir áramót. Vistor sendi Lyfjastofnun þá tilkynningu um skort. Síðan segist Anna hafa verið með allar klær úti, framleiðandinn hafi kembt alla markaði og kannað stöðuna í stærstu vöruhúsum en ekkert fundið.

Í fyrsta lagi fáanlegt í maí

Anna setti sig aftur í samband við framleiðandann eftir að fréttastofa hafði samband við hana í gær og fékk þá þær upplýsingar að lyfið yrði vonandi fáanlegt einhvern tímann í maí, þá verða liðnir níu mánuðir frá því birgðir kláruðust.

Köttur hvílir sig í rúmi.
Köttur þessi tengist efni fréttarinnar ekki beint. Mynd: Pixabay

Leiðindamál

En hvað veldur? Anna segir framleiðandann hafa gefið þær skýringar að kröfur á fyrirtæki sem framleiða dýralyf væru að aukast, þau þurfi að uppfæra gæðakerfi, kröfur og staðla og það geti tekið langan tíma. Níu mánuðir eru þó óvenjulangur tími. „Þetta er leiðindamál. Við höfum lent í því áður að lyf detti út í einhverjar vikur eða mánuði en aldrei svona lengi," segir hún. 

Kattaræktendur þræða apótekin

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Gyða Sigurgísladóttir

Unnur Olga Ingvarsdóttir, dýralæknir á Dýralæknastofu Suðurnesja segir að helstu kattaræktendur, sem nota pilluna til að hafa stjórn á ræktuninni, hafi undanfarna mánuði þrætt öll apótek á höfuðborgarsvæðinu í von um að finna lyfið. Sigurður Ari Tryggvason, formaður Kattaræktarfélags Íslands, Kynjakatta, segist hafa náð að hamstra fyrir sjálfan sig. Spítalar hafi farið að takmarka aðgengi, setja kvaðir um að það þyrfti að koma með læðurnar til að fá lyfið eða vera með lyfseðil frá dýralækni. Hann býr á Akureyri, fór á báða spítalana þar og náði að leysa út lyf en það dugar ekki fram í maí. „Það verður skemmtilegur kór þegar þær byrja allar að breima," segir hann.

Erfitt fyrir þá sem eru með fress á heimilinu

Mynd með færslu
 Mynd:

Sigurður ræktar einungis læður, er ekki með fress. Hann segir að þetta verði erfitt fyrir þá sem eru bæði með læður og högna á heimilinu, margir séu komnir í vandræði nú þegar, búnir með allar pillur. Þetta leiði til þess að það þurfi einfaldlega að loka ræktunarfressinn af.

Nota pilluna til að hvíla læður milli gota

Kattaræktendur nota pilluna til að stýra ræktun og hvíla læður milli gota. Í reglum Kynjakatta, eru ákvæði um að hver læða megi einungis gjóta þrisvar á tveggja ára tímabili. Hann segist þó vita að pillan sé ekkert sælgæti, hún sé krabbameinsvaldandi. 

Hann segir hægt að fá stungulyf í fress, þau geri þá óvirka í ár, en það sé áhætta í því fólgin að nota það því þeir geti orðið varanlega geldir. „Þegar búið er að flytja inn fress fyrir milljón viltu ekki taka sénsinn á því." 

Ársskammtur fyrir 625 dýr

Á síðasta ári seldust um 1500 pakkningar af lyfinu Perlutex, í hverjum pakka er fimm mánaða skammtur. Anna Ólöf hjá Vistor segir að salan hafi minnkað ár frá ári, síðastliðin ár. Ef miðað er við að kettirnir sem fengu lyfið hafi fengið það vikulega allt árið, hefur þetta dugað fyrir 625 læður. Það er þó ekki víst að meirihluti bleyðanna taki lyfið til langs tíma.

Nær þrefaldar hættu á æxlismyndun

Þóra Jónasdóttir, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun, segir fjölda rannsókna takmarkaðan en að þær rannsóknir sem fyrir liggi sýni frekar háa tíðni júguræxla hjá læðum almennt, um 15-20% þeirra fái slík mein. Rannsóknir hafi einnig sýnt að langvarandi notkun hormónalyfja á borð við Perlutex geti nánast þrefaldað þessa áhættu. Það má áætla að um helmingur læða sem fær langtímameðhöndlun með Perlutex fái júguræxli en um fimmtungur þeirra sem ekki taka lyfið og hafa ekki verið teknar úr sambandi.  Æxlin eru illkynja í meirihluta tilvika. Þóra segir að í rannsóknunum sé ekki alltaf skilgreint nákvæmlega hvað átt sé við með langtímameðhöndlun.  Þóra bendir á að rannsóknir hafi sýnt fram á jákvæð áhrif þess að taka læður snemmaúr sambandi, líkur á júguræxlum minnki um 90% séu bleyðurnar teknar úr sambandi fyrir eins árs aldur. 

Mynd með færslu
 Mynd:

Upplýsingar um notkun liggja ekki fyrir

Matvælastofnun hefur engar upplýsingar um notkun lyfsins, magn í umferð, fjölda dýra sem fá það uppáskrifað og hversu lengi það er notað að jafnaði. Þá er sama lyf skráð til notkunar til að seinka gangmáli hjá tíkum eða stöðva lóðarí, mögulegt er að hluti skammtanna hafi verið nýttur til þess. Matvælastofnun er heldur ekki með tölur um tíðni ófrjósemisaðgerða.

Lítill hluti af heildarþýði katta á landinu

Matvælastofnun áætlar að það séu um 30 - 40 þúsund kettir í landinu, þar af 15-20 þúsund læður. Það er því ekki stór hluti þeirra sem fá lyfið. Þóra Jónasdóttir, sérgreinadýralæknir hjá stofnuninni, veit til þess að sumir dýralæknar skrifi einungis upp á lyfið með ráðleggingum um að það sé notað til skamms tíma á meðan beðið sé eftir ófrjósemisaðgerð. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort  skammtímanotkun valdi mjög aukinni áhættu. 

Legið bólgnara hjá læðum sem verið hafa á pillunni

Dýralæknum ber að upplýsa dýraeigendur um áhættuna sem fylgir notkun lyfja. Dýralæknar sem fréttastofa hefur rætt við segjast gera það og mæla með því að læður séu frekar teknar úr sambandi en að þeim sé gefið lyfið. Þeir eru misafdráttarlausir um áhrif langtímanotkunar, sumir segja að í raun sé ekki spurning um hvort læða sem fær lyfið árum saman fær æxli heldur hvenær. Eftir nokkurra ára lyfjagjöf séu læðurnar yfirleitt komnar með frumubreytingar og það geti svo leitt til æxlismyndunar í legi eða spena.

Unnur Olga segir að það sé algengt að sjá breytingar á legi 2-5 ára læða sem hafa verið lengi á pillunni. Þær séu þá með perlutex-leg, bólgið og stærra en það á að vera. Þetta sé þó kannski ekki alveg marktækt þar sem oft sé komið með dýrin í ófrjósemisaðgerðir þegar þau eru breima og þá sé vefurinn bólgnari en venjulega af eðlilegum orsökum. 

Ódýrari lausn til skamms tíma litið

Peningar kunna að hafa áhrif í þeim tilfellum sem pillan er valin í stað ófrjósemisaðgerðar. Það er ódýrara til skemmri tíma litið að gefa lyfið en að taka dýrið úr sambandi. Fimm mánaða skammtur af lyfinu kostar um tvö þúsund krónur en ófrjósemisaðgerð kostar um 20 þúsund krónur. Dýralæknar sem Fréttastofa hefur ræt við nefna að sumir eiga erfitt með að leggja út fyrir aðgerðinni og grípi því til lyfsins. Þá geti ótti við að missa dýrin hugsanlega haft áhrif en til að taka dýrin úr sambandi þarf að svæfa þau og svæfingu fylgir alltaf einhver áhætta. 

Rík ábyrgð á herðum eigenda

Þóra hjá Matvælastofnun segir lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu þeirra eiga að tryggja dýrum sem besta heilsu og velferð, þeir eigi að upplýsa eigendur um áhættu sem tengist meðferð. Þá sé skylda umráðamanna dýra rík samkvæmt lögum um velferð dýra, þeir eigi að vernda þau gegn meiðslum og sjúkdómum. Þá sé það á ábyrgð eiganda að dýrið fái tilhlýðilega meðferð ef sjúkdómur þróast eða að þau séu aflífuð ef þörf er á. Matvælastofnun treystir því að dýralæknar sinni upplýsingaskyldu sinni um áhættu sem fylgir meðferðinni, nema stofnuninni berist ábendingar um annað.  

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV