Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Katrín vill ekki hernaðarumsvif á norðurskauti

16.02.2019 - 12:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Forsætisráðherra sagði utanríkisráðherra Bandaríkjanna í gær að mikilvægt sé að ekki verði hernaðarumsvif á norðurskauti. Bandaríski ráðherrann hlakkar til þess að Ísland taki við formennsku í Norðurskautsráðinu í vor og að ríkin ræði flutning á hergögnum og öðrum gögnum á svæðið.

Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu í vor. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var á blaðamannafundi í Hörpu í gær spurður að því hvernig hann sæi fyrir sér varnarhlutverk Bandaríkjanna á norðurslóðum nú þegar Rússar hafa aukið hernaðarumsvif sín þar og hvort til stæði að Bandaríkjamenn sendu herafla þangað. Pompeo svaraði því til að Bandaríkjastjórn hefði ríkan skilning á hernaðarlegu mikilvægi norðurslóða. Ekki hafi verið ákveðið hvernig brugðist verði við auknum umsvifum andstæðinga Bandaríkjanna og Evrópuþjóða.

„Ég er sannfærður um að árangur verði af samvinnu Bandaríkjanna og Íslands,“ sagði Pompeo og bætti við að hann hlakki til að verða hluti af því, þegar Ísland tekur við formennskunni í Norðurskautsráðinu, að ákveða hvernig og hvert sé best að flytja hergögn og annað, til að tryggja að á norðurskauti verði þeim gildum sem lýðræðisríki setji sér, ekki ógnað.  

Katrín Jakobsdóttir og Pompeo áttu stuttan óformlegan fund í gær. Þar voru aukin umsvif Bandaríkjamanna á norðurslóðum rædd.

„Við ræddum málefni Norðurskautsráðsins þar sem við tökum við formennsku núna í maí. Og ræddum aðeins áherslur Íslendinga í okkar áætlun sem miða að því að tryggja umhverfismál. Það er að segja að tryggja ekki síst að hafið spillist ekki vegna aukinnar umferðar um norðurskautið. Og miða líka að því að standa bara vörð um norðurskautið sem sameiginlegt svæði okkar allra þar sem verði ekki hernaðarumsvif,“ segir Katrín.