Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Katrín skilar stjórnarmyndunarumboðinu

Mynd: RÚV / RÚV
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, skilaði stjórnarmyndunarumboðinu til forseta Íslands þegar hún kom til Bessastaða klukkan tíu í morgun. Katrín tilkynnti þetta á blaðamannafundi eftir að hafa hitt Guðna Th. Jóhannesson forseta.

Fór yfir aðra kosti í gær

„Ég sagði honum að ég skilaði umboðinu, ég hefði reynt þann valkost sem ég hefði viljað reyna við stjórnarmyndun og eins og kunnugt er þá taldi ég eftir vikutíma að það hefðu ekki allir flokkar næga sannfæringu til að halda því samtali áfram. Enda var það vitað fyrirfram að við hefðum ekki endalausan tíma til að sitja þar yfir málum,“ segir Katrín. „Ég notaði svo daginn í gær til þess að fara yfir aðra valkosti og ég upplýsti forsetann um þau samtöl og sagði honum líka að ég myndi skila mínu umboði.“

Þurfa að hugsa út fyrir rammann

Aðspurð sagði Katrín að hún hefði ekki mælt með einhverjum við forsetann til að taka við stjórnarmyndunarumboðinu.
„Staða okkar allra er að þrengjast. Ég held að það sé alveg sanngjarnt að segja það að stjórnmálaflokkarnir þurfa að fara að ræða það innan sinna raða hvort að þeir þurfi þá að fara að slaka á sínum kröfum eða hugsa út fyrir rammann.“

„Ég náði ekki þeim árangri sem ég hefði viljað ná," sagði Katrín. Hún segir ekkert útilokað í stöðunni núna. Hún útilokaði hvorki stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokk, minnihlutastjórn né utanþingsstjórn. „Auðvitað þurfum við þá að fara yfir það, hvaða málamiðlanir við erum tilbúin til að gera.“

Útilokar hvorki utanþingsstjórn né minnihlutastjórn 

Katrín segist eiga von á að þing verði kallað saman, jafnvel fyrir mánaðamót. „Ég held að þing þurfi að koma saman vegna þess að það þarf að afgreiða fjárlög.“ Hún segist ekki hafa áhyggjur af því að vinna á þinginu án þess að búið sé að mynda nýja ríkisstjórn. „Ég held að Alþingi sé fullfært um að koma saman og takast á við það verkefni þó að það sé ekki búið að mynda ríkisstjórn. við þurfum þá að vinna með öðrum hætti en venjulega, þá erum við ekki í fyrirfram skipulögðum meirihluta og minnihluta, kannski er það bara til góðs.“