Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Katrín segir sig frá þjóðsöngsmáli RÚV

10.08.2018 - 13:40
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur ákveðið að víkja sæti í þjóðsöngsmáli RÚV og hefur Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, verið settur staðgengill hennar. Bjarni á að að skoða hvort lög hafi verið brotin með notkun þjóðsöngsins í kynningu Ríkisútvarpsins vegna heimsmeistaramótsins í knattspyrnu.

Katrín les eina línu í kynningunni og segir í samtali við fréttastofu að hún hafi viljað tryggja að öll málsmeðferð yrði hafin yfir allan vafa. „Og að þess vegna taldi ég rétt að víkja sæti í málinu.“ Henni finnst aftur á móti ástæða til að endurskoða lögin um notkun á þjóðsöngnum. „Og ætla því að setja af stað vinnu til að skoða hvort ekki sé hægt að rýmka þær reglur.“

Morgunblaðið hefur fjallað málið. Nokkrir þjóðþekktir einstaklingar voru fengnir til að lesa upp þjóðsönginn við kynningu á þátttöku íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á HM í Rússlandi í sumar. Nokkrar kvartanir bárust til ráðuneytisins eftir að kynningin var spiluð en samkvæmt 3. grein laga um þjóðsönginn er ekki heimilt að nota þjóðsönginn á nokkurn hátt í viðskipta- eða auglýsingaskyni.

Katrín sagði við Morgunblaðið í lok síðasta mánaðar að hún teldi að beiðni RÚV um notkun á texta þjóðsöngsins hefði ekki stangast við lög. Ráðuneytið væri með það til athugunar hvort hin raunverulega notkun færi í bága við lög. 

Í svari RÚV til ráðuneytisins kom fram að ekki væri litið á myndskeiðið sem auglýsingu heldur dagskrárkynningu. Myndskeiðinu hefði verið ætlað að byggja upp stemningu fyrir HM í knattspyrnu.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV