Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Katrín segir flokkinn hafa tekið áhættu

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Fjórir ráðherrar ríkisstjórnarinnar leggja á mánudag fram fimm frumvörp sem er ætlað að efla upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Forsætisráðherra gerir sér vonir um að mæla fyrir frumvarpi í næstu viku sem varðar réttindi barna og felur í sér endurskoðun á lögum um umboðsmann barna og að efnt verði til barnaþings annað hvert ár. Svokallaður þjóðarsjóður með arðgreiðslum frá Landsvirkjun verður notaður í uppbyggingu hjúkrunarrýma og aukna fjárfestingu í nýsköpun.

Þetta var meðal þess sem kom fram í ræðu Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, á fundi flokksráðs Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs nú síðdegis. 

Katrín sagði flokkinn hafa lært að maður nái aldrei fram öllum sinum óskalista í ríkisstjórn og að jafnvel geti fleiri en eitt af mikilvægum gildum flokksins kallað á mismunandi niðurstöðu. „[V]ið tókum áhættuna 2009 og við tökum hana aftur núna af því að við ætlum ekki að láta óttann við gagnrýnina ráða för heldur trúna á að við getum náð árangri fyrir fólkið í landinu; árangri sem er í takt við okkar gildi og okkar hugmyndir.“  Hún viðurkenndi að ríkisstjórnarsamstarfið væri umdeilt en benti jafnframt á að það hefði notið yfirgnæfandi stuðnings innan flokksráðsins. 

Katrín sagði að ekki aðeins hefðu bankarnir hrunið árið 2008 heldur hafi traust í stjórnmálum líka hrunið. Það hafi haft áhrif á þróun stjórnmálanna. „Óttinn við að vera kennt um allt sem aflaga fer hefur áhrif á hvernig ákvarðanir eru teknar því enginn vill bera ábyrgð á hugsanlegum mistökum.“

Katrín boðaði í ræðu sinni fimm frumvörp frá fjórum ráðherrum sem öll eiga að efla upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Þá vonast hún til að mæla sjálf fyrir frumvarpi í næstu viku sem varðar réttindi barna. Það segir hún fela í sér endurskoðun á lögum um umboðsmann barna og efnt verði til barnaþings annað hvert ár. „Ég vona sannarlega að þetta verði til þess að börn og ungmenni fái sterkari rödd í okkar samfélagi.“

Hún sagði ríkisstjórnina ætla að leggja til að settur verði í laggirnar þjóðarsjóður með arðgreiðslum frá Landsvirkjun.  Þær á síðan að nota í uppbyggingu hjúkrunarrýma og aukna fjárfestingu í nýsköpun. 

Katrín gerði líka #metoo-hreyfinguna að umtalsefni. Á næsta ári færi fram alþjóðleg ráðstefna um þetta málefni en hún beindi líka máli sínu til þeirra sem starfa í stjórnmálum. „Við þurfum að horfast í augu við að eðli stjórnmálastarfs er með þeim hætti að þar eru áhættuþættir fyrir hendi.“

Innan stjórnmálaflokka væri alltaf ákveðin samkeppni, færri kæmust að en vildu í ýmsar stöður og „við eigum í átökum um hugmyndir, stefnur og strauma.“ Stjórnmálastarfi fylgdi líka félagslíf sem væri mikilvægur hluti stjórnmálastarfs en gæti einmitt orðið vettvangur áreitni og jafnvel ofbeldis.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV