Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Katrín: Línur skýrast á morgun

Mynd: RÚV / RÚV
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir fundi með formönnum annarra þingflokka í dag hafa skýrt stöðuna og gefa mynd af því hvað sameinar flokkana og hvað sundrað. Hún er bjartsýn á að ná að mynda fjölflokka ríkisstjórn en er raunsæ á að það geti verið erfiðleikum bundið.

„Ég er nú alveg bjartsýn á það en ég er líka raunsæ og ég sé alveg bæði hvar okkar línur liggja saman en ég sé líka ásteitingarsteinana,“ segir Katrín. Hún segist nálgast verkefnið af fullum heilindum. „Við vitum það alveg að þetta eru sjö ólíkir flokkar hér á þinginu og þessir fimm eru ólíkir líka þannig að auðvitað horfum við til þess hvort það sé pólitískur vilji til þess að yfirstíga hindranir og að minnsta kosti láta á það reyna hvort það sé hægt að horfa frekar þess sem sameinar en sundrar,“ segir Katrín.

Hún útilokar ekki aðkomu Framsóknarflokks að ríkisstjórn. „Ég hef auðvitað lýst því að ég telji okkur í VG og Framsóknarflokkinn hafa marga sameiginlega þræði.“

Fimm flokka ríkisstjórn til vinstri sé þó hennar fyrsti valkostur. „Ég horfi til þess að á morgun muni línur skýrast frekar,“ segir Katrín, enda naumur tími til stefnu. „Við höfum ekki marga daga til að ákveða hvert skuli halda.“