Katrín liggur sjálf undir feldi í klukkumálinu

10.01.2019 - 10:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segist sjálf hafa verið íhaldssöm þegar kom að umræðu um breytingar á klukkunni. Það hafi breyst eftir að hún kynnti sér rannsóknir vísindamanna um áhrif svefns á líðan fólks. Hún hefur ekki tekið afstöðu til þeirra þriggja valkosta sem gefnir eru í greinargerð forsætisráðuneytisins. „Ég ligg undir feldi,“ segir Katrín.

Forsætisráðuneytið birti í dag greinargerð á samráðsgátt stjórnvalda þar sem þeirri spurningu er velt upp hvort breyta eigi tímareikningi á Íslandi. Skoða eigi hvort færa eigi staðartíma nær sólartíma miðað við hnattræna legu landsins.

Greinargerðina er hægt að skoða hér til hliðar. 

Umræða um breytingu á klukkunni hefur reglulega skotið upp kollinum. Frá árinu 1968 hefur Ísland haft nokkra sérstöðu meðal landa í Vestur-Evrópu þar sem það er eina landið sem hefur ekki flýtt klukkunni á sumrin og seinkað á veturna.  Staðartími hefur miðast við miðtíma Greenwich sem þýðir að miðað við hnattræna legu landsins er sól hæst á lofti klukkan 13:30 en ekki 12:30.

Nokkur þingmál hafa litið dagsins ljós þar sem lagt hefur verið til að klukkunni yrði seinkað en flugfélög  og íþróttasamtök hafa verið þessu andsnúin. Þau síðarnefndu hafa bent á þetta geti skert möguleika fólks á útivist síðdegis en þau fyrrnefndu hafa talið að þetta myndi valda ruglingi á áætlunartíma flugvéla í millilandaflugi. 

Ákveðin þáttaskil urðu í umræðunni þegar hópur vísindamanna fékk Nóbelsverðlaunin á síðasta ári fyrir rannsóknir á erfða-og sameindalíffræði dægurklukkunnar. Í greinargerð sem birt var á samráðsgátt stjórnvalda í dag er einmitt vitnað til þessarar rannsóknar þar sem skyggnst var inn í gangverk lífsklukkunnar.  

Forsætisráðuneytið leggur í greinargerð sinni til þrjá valkosti. Sá fyrsti er að staðan verði óbreytt en fólk frætt um gagnsemi þess að ganga fyrr til náða. Annar valkostur er að klukkunni verði seinkað um eina klukkustund og sá þriðji er að klukkan verði óbreytt en skólar, jafnvel fyrirtæki og stofnanir, hefji starfsemi seinna á morgnana. 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir í samtali við fréttastofu að henni hafi fundist að þetta væri mál sem ætti erindi við almenning og þjóðin ætti að hafa eitthvað um þetta að segja.  Hún segir mikilvægt að fólki sé gefin rúmur tími til að mynda sér skoðun og bendir í því samhengi á ítarlega greinargerð sem unnin var fyrir heilbrigðisráðherra. 

Sjálf segist Katrín  hafa verið íhaldssöm þegar kom að umræðunni um breytingu klukkunnar. Nú hafi hún hins vegar kynnt sér rannsóknir um áhrif svefns á líðan fólks og ekki sé heldur hægt að líta fram hjá svefnlyfjanotkun Íslendinga en samkvæmt nýlegri úttekt landlæknis eru þau mun meira notuð hér en á hinum Norðurlöndunum.  Katrín segist þó ekki hafa tekið afstöðu til valkostanna þriggja. „Nei, ég ligg undir feldi.“ 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi

Skjöl