Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Katrín Halldóra lagði salinn að fótum sér

Mynd: RÚV / RÚV

Katrín Halldóra lagði salinn að fótum sér

21.03.2017 - 09:31

Höfundar

Það er léttur bragur yfir umhverfi Ellyjar Vilhjálms í söngleik þar sem tónlistarferli hennar, hljómsveitarlífi, ferðum innanlands og utan, þremur hjónaböndum og barneignum er lýst í formi kabaretts. María Kristjánsdóttir, gagnrýnandi Víðsjár, brá sér á frumsýningu á Elly.

María Kristjánsdóttir skrifar:

Er það nostalgía sem maður verður gripinn frammi fyrir minningunni um Elly Vilhjálms eða er það þannig að Elly er einfaldlega partur af okkur sjálfum konunum sem urðum til hægt og rólega á áratugunum eftir síðari heimsstyrjöldina? Þetta dularfulla fágaða blóm á háum hælum og í glæsikjólum sem með sinni fögru rödd hennar sáði hættulegri rómantík  í hjörtu mæðra og dætra. Á sama tíma og Elvis, Bítlarnir komu annars róti á líkama dætranna svo að þær skiptu fljótlega út fjötrandi kjólunum og fengu sér í staðinn gallabuxur og flatbotna skó. Þessi táknmynd kvenleikans sat samt áfram í brjóstinu því að þær skildu það ekki þá, skynjuðu það bara, að á bak við grímu Ellyar  bjó sama óöryggið, sami óttinn og þær þurftu að stríða við. Gallabuxur voru að vísu þægilegri stoð en fínir kjólar gagnvart fordómum og múrum hættilegrar  hugmyndafræði en nægðu ekki alveg, kannski af  því að eftir sátu líka söngvarnir hennar Elly og þvældust fyrir.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Elly Vilhjálms

Nú hafa Gísli Örn Garðarsson og Ólafur Egill Egilsson samið handrit að leiksýningu um Ellý þar sem ævisaga hennar skráð  af Margréti Blöndal er höfð til hliðsjónar.  Gísli Örn Garðarsson leikstýrir og Börkur Jónsson skapar leikmynd. Nýja sviði Borgarleikhússin hefur verið breytt í veitingasal með glæstu lofti , áhorfendur sitja við borð, og  natúralistískt svið  sem rúmar  fimm manna hljómsveit til beggja handa rammar inn leikrými sem gefur tækifæri á glæsilegum innkomum aftast frá miðju. Í þessu andrúmslofti sjötta áratugarins er ævisaga Suðurnesjastúlkunnar, Ellyar, sögð. Frá því að hún, afgreiðslustúlka hjá Jaobssen sem ætlar sér að verða leikkona, tekur þátt í fyrsta sinni í söngvakeppni og þar til hún deyr aðeins sextug af völdum krabbameins.  Söngferlinum, hljómsveitarlífi, ferðum innanlands og utan, þremur hjónaböndum, barneignum er þar lýst í formi kabaretts sem „Raggi Bjarna“ leiðir: örstutt atriði, símtöl, eintöl fléttast lipurlega saman í eina heild. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Halldóra í hlutverki Ellýjar og Björgvin Franz Gíslason í hlutverki Ragga Bjarna

Það er léttur bragur yfir umhverfi söngkonunnar, aðeins fjórir leikarar bregða sér í öll hlutverk samferðamanna hennar og þurfa því að draga upp nokkuð ýkta mynd af hverjum og einum. Látbragð, fas og leikur Hjartar Jóhanns Jónssonar er með ágætum í gervi Eyþórs Þorlákssonar fyrsta eiginmanns Ellyar og Svavars Gests, þó þeir sem muna eftir hinum hávaxna glæsilega Eyþóri eigi ekki auðvelt með að kaupa að Elly hafi orðin skotin í þessum. Og finnist jafnvel nokkuð lítið gert úr Svavari Gests. Björn Stefánsson er heldur ekki trúverðugur sem Jón Páll Bjarnason, stóra ástin í lífi hennar samkvæmt verkinu, og einhver DV bragur yfir allri þeirri sögu. En Björn sem alltaf reyndar minnir mig á Coenbræður bætir það svo sannarlega upp sem trommuleikari í öldungis frábærri hljómsveitinni sem auk hans samanstendur af Sigurði Guðmundssyni, hinum liðuga Aroni Steini Ásbjörnssyni, Guðmundi Óskari Guðmundssyni og Örn Eldjárn. Katla Margrét Þorgeirsdóttir leikur sér auðvitað að því að vinda sér úr einu gervinu í annað og áhrifamestur er leikur hennar og söngur í hlutverki söngkonunnar Sigrúnar Jónsdóttur, þeirrar sem er að víkja fyrir hinni yngri. Það er hins vegar Björvin Franz Gíslason sem túlkar m.a. bæði Ragnar Bjarnason og Vilhjálm Vilhjálmsson sem vinnur eftirminnilegan leiksigur. Þar truflar ekki á nokkurn hátt að leikarinn líkist ekki fyrirmyndunum því hann ræður yfir meðölum til að skila þeim yfir til okkar samt.

Mynd: RÚV / RÚV
Katrín Halldóra flytur lagið Allt mitt líf ásamt hljómsveit í Vikunni með Gísla Marteini þann 24. febrúar

Ég er enn að ígrunda afhverju  valið hefur verið að gera heiminn sem Elly hrærðist í svona léttan, fyndinn, skemmtilegan.  Eiginlega sætan strákaheim. Hefði ekki tragísk saga hennar þurft meiri dýpt, meiri samfélagslega vídd? Ég satt að segja bjóst við því af Ólafi Agli Egilssyni.  Var það af því menn vildu skapa andstæðu við örlög hennar með hlátrinum? Eða braut nauðsyn lög: ekkert um annað að velja þegar fjórir leikarar þurfa að bregða sér í tuttugu gervi? Eða bara þetta sígilda: menn óttast harminn og veðja því á hláturinn, skemmtanagildið?  En í sjálfu sér skipta þau heilabrot mín engu máli. Því að það sem gerðist á laugardagskvöldið var að fram steig á sviðið ung leikkona, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, í frábæru gervi unnu af Árdísi Bjarnþórsdóttur og í sömuleiðis listilega gerðum búningum Stefaníu Adolfsdóttur og lagði salinn með leik sínum og söng gjörsamlega að fótum sér. Allt annað hvarf í skuggann.  Í hverju laginu á fætur öðru minnti hún okkur á okkar einstæðu Elly en kannski öðru fremur á það hve lánsamur  er sá sem fær að sjá og heyra mikla hæfileika flæða fram.

Til hamingju, Katrín Halldóra, og þið öll hin sem studduð hana og fenguð hana til að blómstra.

Tengdar fréttir

Tónlist

Góð pressa sem fylgir því að leika Ellý

Tónlist

Hulunni svipt af Ellý