Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Katrín býður sig fram til formanns

17.02.2013 - 11:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Katrín Jakobsdóttir, varaformaður vinstri grænna, ætlar að bjóða sig fram til formennsku á landsfundi flokksins um næstu helgi.

Katrín tilkynnti þetta um hádegi. Hún hefur verið varaformaður vinstri grænna í áratug og setið á þingi frá 2007. Allan þann tíma hefur Steingrímur J. Sigfússon gegnt formennsku en hann tilkynnti í gær að hann ætli ekki að gefa kost á sér áfram. Steingrímur sækist þó eftir áframhaldandi þingmennsku.

Katrín segir að brotthvarf Steingríms úr forystu flokksins marki tímamót sem veki blendnar tilfinningar. Hins vegar hafi Steingrímur tekið sína ákvörðun og hún og aðrir standi með því.

Brýnast að bæta kjör almennings

Nýr formaður verður kjörinn á landsfundi flokksins á Hótel Nordica í Reykjavík næsta laugardag. Katrín segir að miklu skipti að stefna flokksins um félagslegt réttlæti og sjálfbært samfélag heyrist vel. „Og ég held að við höfum náð umtalsverðum árangri í því samstarfi sem við höfum verið í í ríkisstjórninni og ég held að við getum haldið áfram að ná árangri, ekki síst við að bæta kjör almennings í landinu, sem mér finnst eiginlega brýnasta verkefnið eftir að landið hefur verið reist við eftir efnahagshrun,“ segir Katrín.

Mögulegt að auka fylgið

Hún segir að staðan í skoðanakönnunum sé ekki frábær um þessar mundir. „En ég finn það líka í hreyfingunni að fólk er baráttuglatt og ég held að við getum, með því að snúa bökum saman, og nýta þá baráttugleði til að koma okkar skilaboðum á framfæri næstu mánuði, þá held ég að við höfum alveg möguleika á því að bæta okkar stöðu,“ bætir Katrín við.

Hugur í fólki

Katrín segir að kjörtímabilið hafi verið átakamikið og það hafi reynt á flokkinn. Það sé hins vegar mikill vilji hjá þeim sem enn séu starfangi í flokknum að halda baráttunni áfram og þjappa sér saman um lykilstefnu vinstri grænna. Hún haldi að það sé mikill hugur í fólki. Aðspurð um hvort hún hafi áhyggjur af áframhaldandi sundrungu í flokknum segist Katrín telja að vinstri græn geti staðið sig betur í að vinna saman. Í ljósi erfiðra tíma sé þó kannski ekki nema von að komið hafi upp átök.