Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Katrín: „Áfram bjartsýn en líka raunsæ“

20.11.2016 - 15:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að fundur forystumanna flokkanna fimm í dag hafi verið ágætur. Hún hafi lagt til ákveðið vinnulag og niðurstaðan hafi verið sú að flokkarnir fimm ræði nú við sinn þingflokk og kanni hvort látið verði á það reyna að finna samstarfsgrundvöll. Hún segir niðurstöðu af þeim fundum að vænta í kvöld. Hún segir að ef af þessu verði muni þau reyna að vinna eins hratt og skilvirkt og mögulegt er.

Katrín sagðist í samtali við Viktoríu Hermannsdóttur, fréttamann, áfram vera bjartsýn en líka raunsæ á framhaldið. „Við förum í þetta af fullum heildinum og það er ábyrgðarhluti að reyna að ná saman.“

Hún segir að þau muni vinna þetta hratt. Hún treystir sér þó ekki til að segja nákvæmlega hvenær það liggi fyrir hvort af þessari ríkisstjórn verður - það velti auðvitað fyrst og fremst á því hvort þingflokkarnir samþykkja að hefja formlegar viðræður.

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði að góður samhljómur hefði verið milli flokkanna á fundinum og allir ákveðnir „í að gera eitthvað gott fyrir þessa þjóð.“ Boltinn væri þó hjá Katrínu en hann teldi ekki útilokað að þessir flokkar myndu vinna saman.

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, vildi ekki ganga svo langt að segja að hann væri bjartsýnn. Nú væri þetta í höndum þingflokkanna og svo yrðu menn bara að sjá hvað verði. Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sagði fundinn í dag hafa farið í að meta fundinn í gær og skoða fleti fyrir mögulegu samstarfi. Hann sagðist alltaf vera bjartsýnn og sér litist ágætlega á stöðuna - allir hefðu komið jákvæðir inn á þessa fundi og fyndu til ábyrgðar. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV