Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Katowice-samþykktin sögð tímamótaplagg

Mynd með færslu
Skráðir þátttakendur á loftslagsráðstefnu SÞ í Katowice voru nær 30.000. Þúsundir til viðbótar, úr röðum umhverfisverndarfólks, streymdu til borgarinnar til að mótmæla aðgerðarleysi og hvetja ráðamenn til frekari dáða. Fólkið á myndinni er þar á meðal.  Mynd:
Lokasamþykkt loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Katowice í Póllandi þykir marka nokkur tímamót. Í henni er að finna regluverk og leiðarvísi fyrir þjóðir heims, um hvernig vinna skuli að markmiðum Parísarsamkomulagsins frá 2015. Fulltrúar 195 ríkja sammæltust um og skrifuðu undir samþykktina, sem hefur það að meginmarkmiði að halda hlýnun Jarðar „vel undir" tveimur gráðum frá meðalhita fyrir iðnbyltingu, og helst undir 1,5 gráðum, segir í frétt AFP.

Afrakstur þriggja ára vinnu

Katowice-samþykktin er afrakstur þriggja ára vinnu sem staðið hefur linnulítið síðan Parísarsamkomulagið var undirritað. Þótt hún skuldbindi ríki ekki til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er þannig um hnútana búið, að mati sérfræðinga, að þeim mun reynast erfitt að víkja sér undan því.

Í drögunum að samþykktinni sem sendinefndirnar settust niður með fyrir tveimur vikum voru ríflega 1.900 atriði sem enn átti eftir að ná sátt um. Í gær, laugardag, tókst svo að leysa úr síðustu ágreiningsefnunum. Í lokaútgáfunni segir að heimsbyggðin verði að bregðast við þeirri yfirvofandi vá sem loftslagsvísindin hafa leitt í ljós með því að draga verulega úr losun koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda.

Ekki skylda - en erfitt að víkjast undan

Ekki er gerð tilraun til að segja þeim fullvalda ríkjum sem eiga aðild að samþykktinni fyrir verkum og skikka þær til að fara eftir regluverkinu. Hins vegar geta þau ríki sem hunsa reglurnar átt von á tilfinnanlegum afleiðingum af því. Í frétt þýska blaðsins Der Spiegel segir vísindablaðamaðurinn Axel Bojanowski að með samþykktinni hafi verið sköpuð ákveðin viðmið sem ekkert ríki geti í raun hunsað, vilji það njóta einhverrar virðingar í alþjóðasamfélaginu.

Umhverfissóðar afhjúpaðir og gulrótin tekin frá þeim

Tvennt er það öðru fremur í samþykktinni sem setur þrýsting á ráðamenn í hverju ríki. Annars vegar er það ákvæðið um að halda skuli opið bókhald um hvernig hvert ríki stendur sig í baráttunni. Mestu umhverfissóðarnir verða þannig afhjúpaðir og uppskera fordæmingu alþjóðasamfélagsins á meðan hinir, sem betur standa sig, geta baðað sig í velþóknun þess. Á ensku kallast þessi aðferðafræði „naming and shaming" eða „birting og hirting“ í lauslegri þýðingu. Þetta „virkar yfirleitt ágætlega í alþjóðasamningum," hefur Bojanowski eftir Reimund Schwarze, þaulreyndum sérfræðingi í alþjóðlegri umhverfispólitík.

Hins vegar er það efnahagshliðin, því ríki sem ekki fara að reglunum missa ýmsa spæni úr aski sínum. Til dæmis fá þau ekki stunda viðskipti með losunarkvóta. „Með þessu er verið að  taka af þeim gulrótina, verðlaunin, frekar en að refsa þeim með prikinu," segir Schwarze.

Nokkur lykilatriði í regluverki Katowice-samþykktarinnar

  • Frá og með 2020 skulu öll ríki gefa skýrslu um þær aðgerðir sem þau hafa gripið til í því skyni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
  • Leggja þarf fram mæligögn sem sýna hver losunin er í raun og hvernig hún þróast. Þessi gögn skulu fengin með viðurkenndum mæliaðferðum.
  • Árið 2023 verður lagt mat á það, hvort aðgerðir heimsbyggðarinnar í loftslagsmálum séu í raun til þess fallnar að hægja á hlýnun Jarðar. Slíkt mat skal svo gera á fimm ára fresti eftir það.
  • Rannsóknarnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna fylgist með og skráir, hvernig einstökum ríkjum gengur að ná eigin losunarmarkmiðum.
  • Frá og með árinu 2025 skulu iðnríki heims hækka fjárframlög til verkefna, innanlands og í þróunarlöndum, sem miða að því að bregðast orðnum og fyrirsjáanlegum afleiðingum loftslagsbreytinga. Halda skal nákvæmt bókhald um framlögin og hverju þau skila. Þetta á einnig við hálfiðnvædd ríki, ef þau svo kjósa. Mesta áherslu á að leggja á varnir gegn veðurofsa og vistvæna orkugjafa. 
  • Engin ríki geta stundað viðskipti með losunarkvóta, hvorki keypt hann né selt, nema þau fylgi í einu og öllu regluverki og markmiðum samþykktarinnar um samdrátt í losun koltvísýrings.