Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Katla oft virkari á haustin

03.10.2016 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katla er öflug og virk eldstöð sem verður að fylgjast með þó að svo virðist sem öflugri hrinu sé lokið þar í bili, segir fagstjóri Jarðvár. Óvissustig er enn í gildi vegna Kötlu en opnað var fyrir umferð og gönguferðir að Sólheimajökli í dag.

 

Kröftugri skjálftahrinu í Kötlu virðist að mestu lokið. Óvissustig, sem aðallega felur í sér eftirlit og vöktun er enn í gildi og opnað var fyrir umferð inn að Sólheimajökli í dag. Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðvár á Veðurstofunni, segir að staðan sé þannig núna að það sé lítil skjálftavirkni í Kötlu. Kristín segir ekki vitað hvert framhaldið verður þó að þessi hrina sé búin í bili. 

Þegar við skoðum til lengri tíma þá sjáum við að Katla er búin að vera mjög virk í sumar, frá því í júní. Þannig að við erum inni á tímabili þar sem er búin að vera mjög mikil virkni í Kötlu og við þurfum bara áfram aðeins að bíða og sjá hvað gerist. 

Ekki er hægt að útiloka það að gjósi en skjálftavirknin er til marks um kvikuhreyfingar, sunnarlega í Kötluöskjunni. Kristín segir að þar sem þær verði sé líklegra að gjósi en erfitt sé að spá um slíkt ekki síst þegar virknin sé lítil.

 Hvenær á maður í rauninni að sleppa takinu og segja þetta gott? Það er náttúrulega bara ekki þannig með eldfjöll á Íslandi. Sérstaklega ekki með Kötlu, sem er auðvitað löngu komin á tíma og er mjög virk og öflug eldstöð.  Þannig að við kannski erum aldrei róleg með hana. 

Katla eigi það til að vera virkari um sumar og haust, hugsanlega sé það vegna bræðsluvatns í kerfinu eða áhrifa jökulfargsins, segir Kristín og hún hefur oft gosið að hausti.  Því hafa menn allan varann á þó að þessari hrinu sé lokið í bili. Vísindaráð Almannavarna kom saman í dag.