Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Katla með rólegra móti

06.02.2017 - 11:14
Innlent · Katla
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nokkur virkni var í Kötlu í gær en Sigurdís Björg Jónasdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segist ekki myndi ganga svo langt að kalla þetta sjálftahrinu. Snörpustu skjálftarnir voru 1,8 að stærð. Mest hreyfing var í norðanverðri Öskju og undir Kötlujökli, sem er skriðjökull til austurs.

Sigurdís segir enga breytingu að merkja á Múlakvísl. Rennslið og rafleiðni séu eðlileg. Sigurdís telur að hreyfingar, sem eru mun minni en í þarsíðustu viku, séu tilkomnar vegna hlýinda og úrkomu undanfarið.

Gos í Kötlu hefur ekki náð upp á yfirborð jökulsins frá árinu 1918. Fram kemur á eldfjallavefsjánni að 45% af eldgosum í Kötlum séu minniháttar. 25% eldgosa séu miðlungsstór, 25% séu stór gos og aðeins 5% af gosum séu mjög stór eða hamfaragos.