Katar einangrast hratt

06.06.2017 - 18:50
epa04078799 An aerial view of high-rise buildings emerging through fog covering the skyline of Doha, as the sun rises over the city, in Doha, Qatar, 15 February 2014.  EPA/YOAN VALAT
Doha í Katar. Mynd: EPA
Sjö ríki hafa slitið stjórnmálasambandi við Katar vegna stuðnings stjórnvalda við hryðjuverkasamtök. Áhrifa þessa gætir þegar á daglegt líf íbúa og Íslendingur sem býr í höfuðborginni segir að mikið af matvöru hafi selst upp í verslunum þegar í gær, sama dag og ríkin sjö slitu sambandi við Katar. Sérfræðingur í málefnum Miðausturlanda segir að þetta sé klassísk aðferð stjórnvalda í Sádi-Arabíu til að dreifa athyglinni frá þeirra eigin gjörðum. 

Katar er lítið ríki í Persaflóa. Það er rétt um tíundi hluti af flatarmáli Íslands. Ríkin sjö sem slitu stjórnmálasambandi við Katar í gær eru Sádi-Arabía, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Barein, Egyptaland, Jemen, stjórnvöld í austurhluta Líbíu og Maldívur. 

Sama dag og ríkin slitu stjórnmálasambandi við Katar fór áhrifa þess að gæta. Hillur matvöruverslana tæmdust samdægurs og óvíst hvenær matur kemur aftur í verslanir. Katar flytur inn langmest af sinni matvöru, 40% hennar koma landleiðina frá Sádi-Arabíu og þaðan er ekki matar að vænta á næstunni. Jónas Grani Garðarsson býr í höfuðborginni, Dóha.

„Ef þú spyrð þá sem fóru í súpermarkaðinn eða kjörbúðina, þá taka þeir þessu greinilega mjög alvarlega, því það kláraðist allur kjúklingur og mjólk og egg fóru langleiðina. Túnfiskur í dósum og allskonar dósamatur, það var bara að verða búið, hveiti og sykur, sá verulega á hillunum þar,“ segir Jónas.

Meirihluti íbúa Katar eru erlendir farandverkamenn.  Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sögu Mið-Austurlanda segir að ástandið hafi þegar í stað mikil áhrif á daglegt líf þeirra.

„Að sjálfsögðu. Ríkisborgarar þessa lands eru náttúrlega vel stæðir og maður hefur ekki endilega áhyggjur af þeim, en það er svo mikið af fátæku fólki sem er farandverkafólk þarna, sem hefur engin réttindi og það eru þeir sem ég hef miklar áhyggjur af, hvað verður um þá.“

Ríkin segja að stuðningur Katar við hryðjuverkasamtök sé meginástæða þess að þau slíti stjórnmálasambandi við ríkið og vinveitt samband þess við stjórnvöld í Íran. Margir fréttaskýrendur telja einnig að slitin megi rekja beint til heimsóknar Trumps Bandaríkjaforseta til Miðausturlanda fyrir nokkrum dögum. Þar ávarpaði hann toppfund Arabaríkja, kenndi Íran að miklu leyti um óstöðugleikann í Miðausturlöndum og brýndi ríkin til dáða í baráttunni gegn hryðjuverkum. Enda tísti Trump í dag sigri hrósandi að þetta væri ávöxtur heimsóknar hans til Sádi-Arabíu.

Saeed Sadek, prófessor í félagsfræði við Future University í Kaíró í Egyptalandi segir að stjórnvöld í Katar verði að virða niðurstöður fundarins í Ríad, tempra samskipti sín við Íran, láta af fjárhagslegum stuðningi við hryðjuverkasamtök í Mið-Austurlöndum og hætta að kynda undir ófriði í löndum eins og Líbíu, Egyptalandi, Jemen og Sýrlandi.

Mesta kaldhæðnin í þessu öllu saman er kannski að Sádi-Arabía hefur árum saman verið sökuð um að styðja ISIS, hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki fjárhagslega, og vagga wahhabisma, sem er afar íhaldsöm bókstafstrúarstefna innan íslams, er einmitt Sádi-Arabía, en fjölmargir fræðimenn telja að hin grimma hugmyndafræði ISIS sé einmitt runnin þaðan.

Magnús Þorkell tekur undir þá gagnrýni: „Já, að sjálfsögðu. Sádarnir eiga þarna stóran hlut í þessu öllu saman, en þetta er náttúrlega mjög klassísk aðferð hjá þeim að dreifa athyglinni frá því sem þeir eru að gera. Núna eru allir að tala um Katar og það sem þeir hafa verið að gera og þess háttar og þá er enginn að spá neitt í hvað Sádi-Arabía er að gera, og þetta lýsti sér líka þegar Trump var í heimsókn hjá þeim, þá fór hann bara að tala um að vandamálið í Austurlöndum væri Íran og ekki neitt annað.“

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu, Barein, og Sameinuðu arabísku furstadæmunum hafa veitt borgurum frá Katar tvær vikur til þess að koma sér úr landi og bannað sínum ríkisborgurum að ferðast til Katar. Þessi ríki stöðvuðu líka þegar í stað allar samgöngur, í lofti, á láði og legi, til og frá Katar.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi